Áfengisfrumvarpið „skapað óöryggi og streitu“

20.03.2017 - 07:39
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Starfsmenn ÁTVR eru langþreyttir á umræðu um afnám einkaréttar á sölu áfengis og tóbaks sem þeir segja ítrekað hafa skapað óöryggi og valdið streitu. Þeim gremst eilífar rangfærslur í umræðunni og vanþekking og virðingarleysi gagnvart því mikilavæga starfi sem starfsfólkið vinni í þágu lýðheilsu í landinu.

Þetta kemur fram í umsögn starfsmannafélags ÁTVR við áfengisfrumvarpið svokallaða.

Þar segja starfsmennirnir jafnframt að þeir telji tímabært að þingmenn taki frumvarpið af dagskrá - það sé í algjörri andstöðu við niðurstöður allra rannsókna helstu sérfræðinga um skaðleg áhrif áfengisneyslu. Þá hafi skoðanakannanir ítrekað sýnt að mikill meirihluti þjóðarinnar sé fylgjandi núverandi fyrirkomulagi. 

Á það er bent að Íslendingar búi ekki einir við fyrirkomulag ríkissölu eins og oft mætti ætla af umræðunni. Norðurlandaþjóðirnar, að undanskilinni Danmörku, hafi með góðum árangri valið sér sambærilegt fyrirkomulag. „Vísindalegar rannsóknir benda allar til þess að einkasala ríkisins sé skilvirkasta leiðin til þess að takmarka skaðleg áhrif áfengisneyslu.“

Þá bendir starfsmannafélagið á að starfsfólk ÁTVR búi yfir umfangsmikilli þekkingu á þeim vörum sem það selji - vínfræði sé skyldunámskeið sem öllu fastráðnu starfsfólki sé gert að sækja á fyrstu sex mánuðum í starfi. 

Starfsmannafélagið segir að það veki furðu ef þingið ætli sér að hunsa vilja mikils meirihluta þjóðarinnar sem hafi lýst vanþóknun sinni á frumvarpinu - þingmenn eigi að sýna dug sinn og álykta að einkaréttur ÁTVR skuli teljast ein af meginstoðum áfengisstefnu þjóðarinnar til frambúðar.