Áfall fyrir Írland ef Bretar segja sig úr ESB

21.01.2016 - 09:02
Stjórnvöld á Írlandi hafa miklar áhyggjur af afleiðingum þess ef Bretar ákveða í fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu að segja sig úr Evrópusambandinu. Það yrði gríðarlegt efnahagslegt áfall fyrir Íra. Bretland er þeirra langmikilvægasta viðskiptaland og þeir treysta mjög á greið og óheft samskipti við þessa granna sína, sem þeir deila með stóran hluta sögu sinnar. Bogi Ágústsson ræddi þetta á Morgunvaktinni á Rás 1.

Einnig var rætt um baráttuna fyrir forkosningar vegna forsetaframboða vestanhafs. Framganga Sarah Palin í gær hefur vakið mikla athygli þegar hún lýsti yfir stuðningi við Donald Trump sem frambjóðanda Repúblikanaflokksins. Hjá demókrötum hefur Bernie Sanders yfirhöndina í baráttunni við Hillary Clinton vegna forvals í Iowa og New Hampshire. Þá barst spjallið á Morgunvaktinni að ráðstefnunni World Economic Forum í Davos í Sviss, þar sem áhrifafólk í viðskiptalífi og stjórnmálum heimsins ræðir málin. Flutt var brot úr áhrifamikilli ræðu Joe Biden, varaforseta Bandaríkjanna, sem hvatti hina auðugu og áhrifamiklu til að hugsa ekki einvörðungu um hag hluthafa í fyrirtækjum þeirra, með því að geyma fjármuni í skattaskjólum, heldur minnast þess að samfélögin þar sem þeir störfuðu þyrftu á peningum þeirra að halda. 

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi