Af trompum Donalds Trumps í kosningabaráttunni

epa05132483 Businessman and Republican presidential candidate Donald Trump shows off the 22 Kill Honor Ring that represents twenty two veterans that kill themselves daily by suicide that was presented to him by three veterans during a rally on the Drake
 Mynd: EPA
Sumum fannst framboð Donalds Trumps fyndið, aðrir ypptu öxlum en fáir tóku það alvarlega framan af. Nú er komið annað hljóð í strokkinn.

Lætur hárbrandara sem vind um eyru þjóta

Hann segir það sem honum dettur í hug, engar skrifaðar ræður, lætur alla hárbrandarana sem vind um eyru þjóta og einmitt af því hann segir það sem honum dettur í hug er enginn hörgull á efni á netinu þar sem hann hefur lýst margvíslegum skoðunum sem stangast iðulega á. Framan af tóku fáir aðrir en aðdáendur Donalds Trumps hann alvarlega. Það hefur komið mótframbjóðendum hans í koll. Nú spyrja landar hans hvort hann sé óstöðvandi.

Litríkt einkalíf

Trump erfði verktakafyrirtæki, bætti við hótelum og einkalífið er litríkt. Frá 2004 og í ellefu ár var hann aðalpersóna í raunveruleikasjónvarpsþætti, The Apprentice eða Lærlingnum. Þar var valinn sigurvegari úr hópi þátttakenda sem hreppti þá yfirmannsstarf hjá Trump. Frami hinna útvöldu varð upp og ofan en Trump uppskar mikla frægð.

Segir Mexíkóbúa glæpamenn og nauðgara

Hann var þekktur sem orðhákur og ólíkindatól og framboði hans var mætt sem enn einu uppátæki hans. Hann hellti sér út í baráttuna með Trump-stæl, lýsti því yfir að Mexíkóbúar væru upp til hópa nauðgarar og glæpamenn. Menn hneyksluðust en vinsældirnar bara jukust. Andstæðingarnir héldu áfram að yppa öxlum nema auðvitað ekki sívaxandi hópur kjósenda Trumps. Þeir fögnuðu.

Hvítt lágstéttarfólk

Það var nóg af sannfærandi skýringum á af hverju Trump-eimreiðin myndi fljótt missa aflið. Ein skýringin var að Trump höfðaði fyrst og fremst til hvíts lágstéttarfólks sem væri ólíklegt til að kjósa. Eitt væri að hrífa fólk, annað að draga það á kjörstað. Til þess eru meðal annars öflugar kosningamaskínur frambjóðenda sem beita vísindalegum aðferðum til að finna líklega kjósendur og síðan er her sjálfboðaliða til að fá þá á kjörstað.

Flýtur áfram á ókeypis auglýsingum

Trump hafði ekkert slíkt, er vanur að styðjast við brjóstvitið, fjármagnar kosningabaráttuna sjálfur og hefur verið áberandi sparsamur. Um miðjan febrúar hafði Jeb Bush slegið öll met, eytt 62 milljónum dala í sína baráttu meðan Trump hafði eytt rúmlega tíunda hluta þess eða 6,6 milljónum. Bush hefur gefist upp. Trump er reyndar búinn að ráða öflugan kosningastjóra en flýtur áfram á ókeypis auglýsingum í krafti stórkallalegs talsmáta.

LJóst að hann getur dregið fólk í kjörklefann

Þegar Trump tapaði fyrsta forvalinu kinkuðu menn kolli, það staðfesti þá trú að hann gæti ekki dregið fólk í kjörklefann og fylgið í raun lítið á landsvísu. Nú er staðan önnur eftir þrjá sigra í röð, síðast í Nevada. Og það jafnvel þó hann bæri nafn fylkisins ekki fram eins og heimamenn. Nú er ekki lengur hægt að halda því fram að kjósendur hans mæti ekki á kjörstað. Þátttakan í Nevada var metmikil og forskot hans á keppinautana eykst.

Segist vera af sænskum ættum

Kjósendum hans er alveg sama þó hann hafi orðið margsaga um helstu mál – hann er af þýskum ættum en segist iðulega vera af sænskum ættum – og sé oft ekki sérlega íhaldssamur á bandarískum skala. Það sem hann spilar á er djúpstæð tortryggni Bandaríkjamanna á yfirvöldum og enn frekar núna eftir fjármálahrun og undirmálslánahremmingar sem leiddu til þess að milljónir manna gátu ekki haldið fasteignum út á lán sem það átti í raun aldrei möguleika á að borga af.

Reiðir kjósendur

Kjósendur Trumps eru reiðir, líkt og kjósendur demókratans Bernie Sanders sem lofar byltingu. Og að hluta höfða þeir til sömu reiðu hópanna sem gefa lítið fyrir valdakerfið og elítur í Washington.

Afskiptaleysið hjálpaði

Eitt tromp Trumps er að keppinautar hans flöskuðu á því lengi framan af að taka hann alvarlega. Þeir létu hann afskiptalausan, leyfðu honum að gaspra ómótmælt af hjartans vild og enginn hefur í raun fundið almennilega leið til að taka á honum. Þetta er til dæmis talinn veigamikill þáttur í falli Jeb Bush sem var fyrirfram talinn líklegasti sigurvegarinn sem sonur og bróðir fyrrum forseta og með fulla vasa fjár sem hann safnaði fyrirhafnarlaust.

Trump er ljóslega utangarðsmaður í flokknum, enginn óskakandídat innstu valdavéa Repúblíkanaflokksins. Þar hrylla sig margir en ef Trump tækist að koma forsetaembættinu aftur til flokksins fyrirgæfist honum margt.

Hlýtur hann útnefningu Repúblikanaflokksins?

En gæti Trump á endanum hlotið útnefningu flokksins? Allar skoðanakannanir hingað til hafa sýnt að einn á einn sé hann ólíklegur til að sigra. En hver veit, engum datt í hug að hann kæmist þó þetta langt. Og hlyti hann útnefningu gæti hann þá sigrað? Aftur, skoðanakannanir sýna annað en hver veit.

 

Mynd með færslu
Sigrún Davíðsdóttir
Mynd með færslu
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi