Af morði íslensks skálds á Gotlandi

16.02.2016 - 03:40
Mynd með færslu
Frá St. Ólafshólma á Gotlandi  Mynd: K. Brodowski  -  Wikipedia
Sænskir séfræðingar telja að þeir hafi fundið íslenska skáldið Jökul Bárðarson sem Ólafur helgi Noregskonungur lét drepa á Gotlandi árið 1029. Ef rétt reynist eru þetta elstu jarðnesku leifar nafnkunns Íslendings sem fundist hafa. Jökull, sem var frændi Grettis sterka Ásmundssonar, var skáldmæltur og orti bókstaflega fram í rauðan dauðann. Honum eru einnig eignuð fleygustu orð Grettis sögu og jafnvel sagnaarfsins alls: „...sitt er hvað, gæfa eða gjörvugleikur."

Bein sem talin eru hugsanlega úr íslenska skáldinu  Jökli Bárðarsyni eru meðal sex beinagrinda sem fundist hafa í rannsókn við Sankti Ólafsholm í Hellvi á Gotlandi þar sem segir í Gautasögu að Ólafur helgi Noregskonugur hafi stigið á land. Snorri Sturluson segir í sögu sinni um Ólaf helga í Heimskringlu að konungur hafi látið höggva Jökul sem var í liði Hákonar jarls, óvinaflokki konungs. Auk þess að vera í liði Hákonar hafði Jökull unnið sér það til óhelgi að gera grín að Ólafi í vísu, þar sem hann sagði kónginn digran.  

Sagan segir að Jökull hafi setið uppréttur og þegar hann heyrði hvininn í öxinni hafi hann kastað sé upp á við. Við það kom höggið á höfuðið og varð af mikið sár. Konungur þóttist sjá að þetta væri banasár og sagði mönnum sínum að láta gott heita. Skáldið sat þó uppi og orti þetta kvæði þar til honum blæddi út:

Svíða sár af mæði. 
Setið hefi eg oft við betra. 
Und er á oss sú er sprændi 
ótrauð legi rauðum. 
Byss mér blóð úr þessi 
ben. Té eg við þrek venjast. 
Verpr hjálmgöfugr hilmir 
heiðsær á mig reiði. 

Síðan dó Jökull.

Aldur beinagrindarinnar, sem fundinn var með C14 kolefnisgreingu, passar við aftökutíma Jökuls og áverkar á höfuðkúpunni  eru eins og þeir sem lýst er í sögunni. Verið er að greina DNA-erfðaefni og isótópa úr tönnum sem sýna með óyggjandi hætti hvort maðurinn hefur verið fæddur á Íslandi. Þannig ætti að verða ljóst fljótlega hvort menn eru búnir að finna íslenska skáldið Jökul Bárðarson, 987 árum eftir að hann var tekinn af lífi.

Móðurbróðir Grettis 

Jökull skáld Bárðarson var móðurbróðir Grettis og voru þeir um margt líkir frændurnir, ef marka má höfund Grettlu sem lýsir Jökli svo:

„Jökull var mikill maður og sterkur og hinn mesti ofsamaður. Hann var siglingamaður og mjög ódæll en þó mikilhæfur maður.“

Jökull bjó að Tungu í Vatnsdal. Draugurinn Glámur gekk þá ljósum logum á Þórhallsstöðum og raunar öllum bæjum ofan Tungu svo engum var þar vært. Óttuðust  bændur að byggð legðist af í dalnum ef ekki yrði að gert. Grettir ákvað að gera eitthvað í málinu og gerði sér ferð í Vatnsdalinn. Kom hann við hjá Jökli frænda sínum sem tók vel á móti Gretti sem gisti þrjár nætur í Tungu. Fátt var rætt í þeirri sveit annað en Glámur og hans voðaverk öll.  Hann hafði drepið allan búpening í dalnum og fjölda fólks þegar þarna var komið sögu. Grettir spurði frænda sinn mjög út í þá atburði alla og ástandið á Þórhallsstöðum. Grípum hér niður í Grettis sögu:

„Jökull kvað þar ekki meira af sagt en til væri haft „eða er þér forvitni á frændi að koma þar?"

Grettir sagði að það var satt.

Jökull bað hann eigi gera „því það er gæfuraun mikil en frændur þínir eiga mikið í hættu þar sem þú ert," sagði hann. „Þykir oss nú engi slíkur af ungum mönnum sem þú en illt mun af illum hljóta þar Glámur er. Er og miklu betur að fást við mennska menn en við óvættir slíkar."

Grettir kvað sér hug að koma á Þórhallsstaði og sjá hversu þar væri um gengið.

Jökull mælti: "Sé eg nú, ekki tjáir að letja þig en satt er það sem mælt er að sitt er hvað, gæfa eða gjörvugleikur."

"Þá er öðrum vá fyrir dyrum, er öðrum er áður inn um komið, og hygg að hversu þér mun fara sjálfum áður lýkur," kvað Grettir.

Jökull svarar: "Vera kann að við sjáum báðir nokkuð fram en hvorgi fái við gert." Eftir það skildu þeir og líkaði hvorigum annars spár.“

 

Þorvaldur Friðriksson
Fréttastofa RÚV
Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV