„Af hverju notum við ekki þetta vinnuafl?“

06.03.2016 - 20:09
„Af hverju notum við ekki þetta vinnuafl? Af hverju notum við ekki þessa skattgreiðendur sem eru fúsir til að koma og vera hér. Þeir eru báðir með vinnu og með þak yfir höfuðið og munu ekki verða nein byrði á okkur Íslendingum.“ Þetta sagði Helga Vala Helgadóttir, lögmaður Wajden Drbasea og Ahmad Ibrahim. Wajden og Ahmad var fyrir helgi tilkynnt að þeir yrðu fluttir úr landi.

Ahmad hefur vinnu hér á landi og Wajden hefur fengið ráðningasamning í hendurnar. Sótt var um dvalarleyfi fyrir Ahmad og Wajden á grundvelli skorts á vinnuafli.

„Við óskuðum eftir því að þeir fengju að vera hér á meðan sú umsókn er til meðferðar. Það var sú synjun sem kom á föstudag,“ segir Helga Vala sem er ósátt við að mönnunum sé vísað úr landi til Búlgaríu, á meðan umsóknin er tekin fyrir.

Rætt var við Helgu Völu í fréttum sjónvarps í kvöld.

Mynd með færslu
Guðmundur Björn Þorbjörnsson
Fréttastofa RÚV