Ætti að skilgreina tálmun sem ofbeldi

29.04.2016 - 15:04
Mörg hundruð íslensk börn búa við þær aðstæður að foreldrar þeirra eiga í heiftarlegum deilum í kjölfar sambúðarslita eða skilnaðar. Í sumum tilfellum kemur annað foreldrið í veg fyrir samskipti barns við hitt foreldrið og telur sig jafnan hafa fyrir því réttmætar ástæður. Kerfið sem á að taka á þessum málum og leysa úr þeim er hins vegar svo svifaseint að það getur tekið mörg ár að fá tálmunum rutt úr vegi. Það er einkar slæmt í svona málum, því tíminn er afar dýrmætur þegar börn eiga í hlut.

María Júlía Rúnarsdóttir, lögmaður, hefur unnið mikið í þessum málum og skrifaði M.L. ritgerð um foreldrafirringu sem eina tegund tálmunar á umgengni. Hún segir rétt barna til umgengni við báða foreldra mjög skýran í barnalögunum. Umgengni megi ekki vera háð geðþóttaákvörðun annars foreldrisins og því sé það fagaðila að meta hvort það sé réttmæt staðhæfing þess foreldris sem tálmar umgengni, að það sé barninu fyrir bestu að vera ekki í tengslum við hitt foreldrið - sem er yfirleitt faðirinn.

 

„Gallinn í þessu kerfi er hversu svifaseint það er. Þetta tekur allt rosalega langan tíma. Á meðan geta aðstæður verið þannig að það er engin umgengni. Við getum verið að tala um marga mánuði eða jafnvel ár í sumum málum þar sem er mikill ágreiningur  og mikil togstreita á milli foreldranna.“

María segir eftirfylgni í kerfinu að sama skapi ekki mikla, þótt búið sé að gera samning um umgengni, sé ekkert víst að hann verði virtur og takmarkað sem kerfið gerir til að sjá til þess.

„Ég held að það sé brýn nauðsyn til að við skilgreinum þetta, óréttmæta tálmun, sem ofbeldi. Þetta hefur gríðarlega alvarlegar og langvarandi og jafnvel óafturkræfar afleiðingar.“

María og Stefanía Katrín Karlsdóttir unnu rannsókn árið 2008 þar sem rætt var við fjölda manns úr kerfinu. Starfsmenn á vegum sýslumanns, félagsþjónustu og sveitarfélaga, lögmenn og sálfræðinga sem vinna í þessum málum, dómstóla, Barnahús og fleiri.

Stefanía segir greinilegt að þó nokkuð skorti á skýra verkaskiptingu. Stafsmenn sýslumannsembættanna bendi oft á barnavernd og barnavernd á sýslumann. Rétt eins og gerðar séu kröfur um hámarkstíma málsmeðferðar í málum sem snúast um efnislega hluti, væri eðlilegt að krefjast þess að leyst væri úr málum sem hefðu með börn að gera innan ákveðins tímaramma.

Stefanía segir sérfræðinga í íslenska kerfinu þó almennt meðvitaða um skaðsemi þess fyrir börn ef umgengni þeirra við annað foreldrið er takmörkuð eða tálmuð. Því fylgi almenn vanlíðan, sorg, kvíði og jafnvel þunglyndiseinkenni.

Niðurstöður viðtala og rannsókna þeirra Maríu og Stefaníu eru að kerfið sé mæðradrifið. Sjónarmið og hagsmunir mæðra séu oft hafðir að leiðarljósi fremur en hagsmunir barna. Lagalega sé þó ekki gerður neinn greinarmunur á foreldrum eftir kyni, en svo virðist sem samfélagið sé ennþá fast í því að börn eigi að tilheyra mæðrum sínum.

 

 

Mynd með færslu
Þóra Arnórsdóttir
Fréttastofa RÚV
Kastljós