Ætluðu að sprengja flugvél og úða eiturgasi

04.08.2017 - 03:10
Mynd með færslu
 Mynd: Damien Aiello  -  Wikimedia Commons
Tveir menn eru ásakaðir um tvenns konar tilraunir til hryðjuverka í Ástralíu. Þeir hafi annars vegar reynt að granda flugvél með sprengju að vopni og hins vegar reynt að smíða drápstæki sem átti að gefa frá sér eiturgas. Þetta er haft eftir ástralskri lögreglu á vef breska ríkisútvarpsins, BBC. Mennirnir lögðu á ráðin um einhver flóknustu hryðjuverk sem framin hefðu verið á ástralskri grundu, segja rannsakendur málsins, en til stóð að nota flókinn búnað.

Talið er að íhlutir sprengjunnar, sem átti að beita á farþegavél flugfélagsins Etihad frá Sydney-borg 15. júlí, hafi komið frá Tyrklandi, frá hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki. Sprengjan hafi hins vegar aldrei komið nálægt flugvélinni og ráðabrugg mannanna var stöðvað. Þá náðu mennirnir aldrei að ljúka við eiturgastæki, sem átti að gefa frá sér brennisteinsvetni.

Brennisteinsvetni er litlaus eitruð gastegund. Megn lykt er af efninu sem gjarnan fylgir hlaupum í jökulám.

Lögreglan í Ástralíu handtók fjóra í úthverfum Sydney á laugardag vegna sprengjunnar og hefur í vikunni gert húsleit í fleiri úthverfum vegna málsins. Tveir mannanna voru ákærðir fyrir að undirbúa hryðjuverk og talið er að einn þeirra hafi verið í sambandi við Íslamska ríkið. Malcolm Turnbull, forsætisráðherra Ástralíu, sagði á fimmtudag að áform mannanna hefðu verið gerð að engu.

Sjá frétt BBC hér.

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV