Ætluðu að reyna að ná Snowden í Danmörku

05.02.2016 - 14:14
epa04551333 ATTENTION EDITORS: EMBARGOED
Edward Snowden.  Mynd: EPA  -  DPA
Sören Pind, dómsmálaráðherra Danmerkur, viðurkenndi í dag að Bandaríkjamenn hefðu sent flugvél til Kaupmannahafnar í júní 2013 í þeim tilgangi að handsama uppljóstrarann Edward Snowden kæmi hann þangað og fljúga með hann heim til Bandaríkjanna.

Snowden var á þeim tíma á flugvelli í Moskvu þar sem hann dvaldi í rúman mánuð áður en hann fékk hæli í Rússlandi.

Það var danski vefmiðillinn Denfri sem í síðasta mánuði greindi fyrst frá þessu flugi Bandaríkjamanna til Kaupmannahafnar, en fréttin var byggð á gögnum sem miðillinn hafði fengið frá danska dómsmálaráðuneytinu.

Danskir embættismenn vísuðu frétt Denfri á bug og Pind sagði að hann hefði enga vitneskju um tilganginn með komu vélarinnar þegar hann var spurður um málið á þingi í gær.

Hann sagði hins vegar í yfirlýsingu í dag að danska stjórnin hefði veitt Bandaríkjamönnum heimild til að fljúga í danskri lofthelgi og nota flugvöllinn í Kaupmannahöfn vitandi það að ætlunin væri að flytja Snowden til Bandaríkjanna ef tækist að ná honum.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV