„Ætla að græða á því að menga náttúruna“

17.02.2016 - 22:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjárfestar sem stóðu að málmendurvinnslu á Grundartanga ætluðu að græða á því að menga íslenska náttúru og hleypa út eitruðum efnum. Þetta segir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands. Hann telur hins vegar að það hafi verið rétt mat hjá Skipulagsstofnun að starfsemin þyrfti ekki að sæta mati á umhverfisáhrifum.

Umhverfisstofnun hefur gert hátt í 30 athugasemdir við starfsemi málmendurvinnslunnar GMR á Grundartanga á innan við þremur árum. Frá þessu var greint í Kastljósi í kvöld. Síðan verksmiðjan tók til starfa í september 2013 hefur Umhverfisstofnun gert athugasemdir við á þriðja tug tilvika sem talin eru brot á starfsleyfi fyrirtækisins. Skipulagsstofnun taldi starfsemina ekki þurfa að sæta mati á umhverfisáhrifum á sínum tíma. Umhverfisstofnun beitir fyrirtækið 50 þúsund króna dagsektum vegna ítrekaðra vanefnda fyrirtækisins við að koma mengunarvörnum í rétt horf. Mælingar hafa ítrekað sýnt fram á að losun mengandi efna sé umfram mörk starfsleyfis og að mengunarvarnir séu ófullnægjandi.

„Þarna eru á ferðinni fjárfestar sem svífast einskis, ætla að græða á því að menga náttúru landsins og eru að hleypa út þarna baneitruðum efnum umfram starfsleyfi,“ segir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.

Það er verið að beita þetta fyrirtæki dagsektum, er það nóg?

„Greinilega ekki. Það þarf að gera meira.“

Hvað á að gera?

„Hækka dagsektir eða gefa Umhverfisstofnun meiri lagaheimildir til að taka á svona fólki.“

Skipulagsstofnun taldi þetta fyrirtæki ekki þurfa að sæta mati á umhverfisáhrifum, heldurðu að það hafi verið rétt mat?

„Ég býst við því. Skipulagsstofnun gerir ráð fyrir því að menn vinni í góðri trú. En þessir menn eru ekki að gera það.“

En hefði Skipulagsstofnun ekki átt að sjá þetta fyrir?

„Það er Umhverfisstofnun sem á að fylgjast með og það hefur hún gert og komist að því að margítrekað hefur verið farið fram úr þeim mörkum sem leyfið veitir þessu fyrirtæki,“ segir Árni.

Framkvæmdastjóri GMR sagði í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í dag að unnið væri að úrbótum. Dagsektum sem lögð voru á fyrirtækið hafi verið mótmælt. Ekki náðist í Eyþór Arnalds, stjórnarformann GMR, í kvöld.

Mynd með færslu
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV