Ærin verkefni hjá björgunarsveitum-Myndskeið

14.03.2016 - 06:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Björgunarsveitir höfðu í nógu að snúast fram eftir kvöldi, í gærkvöld, þegar mikið hvassviðri gekk yfir landið. Rýma þurfti hús á Patreksfirði sökum hættu á krapaflóði og vatn flæddi yfir veginn í Goðadalssveit á sunnanverðum Vestfjörðum og við Hrafnagil í Eyjafirði. Á Ísafirði og í Bolungarvík þurfti björgunarsveitarfólk að festa báta og tryggja ýmislegt lauslegt.
Myndband: Jóhannes Jónsson og Teitur Magnússon

Halldór Óli Hjálmarsson, sem er í svæðisstjórn björgunarsveitarinnar á Ísafirði, sagði í samtali Höllu Ólafsdóttur fréttamann, að útköllin hefðu byrjað í Bolungarvík þar sem bátur losnaði frá bryggju. Þá hafi verið nokkur útköll á Ísafirði og á Suðureyri. Byrjað hafi að hvessa um kvöldmatarleytið í gær. Plötur hafi verið að fjúka, stillansar og bátar að fjúka upp. Þá sprakk rúða í bíl björgunarsveitarinnar. Þegar veðrið var verst voru sterkustu hviðurnar milli 40 og 50 metrar á sekúndu.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tryggja þurfti báta á Ísafirði
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Björgunarsveitin á Ísafirði tók niður stillansa sem var við það að fjúka.

Hús rýmd á Patreksfirði

Á Patreksfirði voru 21 hús rýmd þar sem hætta var á krapaflóði. Harpa Grímsdóttir, fagstjóri ofanflóðavár Veðurstofunnar, segir að vel sé fylgst með svæðinu í Geirseyrargili á Patreksfirði þar sem hættan er og að staðan verði metin nú í morgunsárið. Spáð er kólnandi veðri með morgninum og þá dregur úr líkum á flóði.
 
Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Einarsson  -  RÚV
Rýma þurfti hús á Patreksfirði vegna hættu á flóðum
Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Einarsson  -  RÚV
Lýst var yfir snjóflóðahættu á Patreksfirði

Vatn hefur flætt yfir vegi

Mikið vatn flæddi yfir veg númer 823 við Hrafnagil í Eyjafirði og telst hann ekki fær minni bílum. Malbik flettist af veginum við Kolgrafabrú á Snæfellsnesi og þá hafði vatn flætt yfir veginn í Gufudalssveit á sunnanverðum Vestfjörðum. Eins var eitthvað um grjóthrun neðst í Kleifarheiði, þegar komið er í Patreksfjörð. Vegagerðin hefur varað fólk við að vera á ferð á vestan- og norðanverðu landinu en nánari upplýsingar um færð má finna á vef Vegagerðarinnar.
 
 
Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Einarsson  -  RÚV
Grjót hefur hrunið úr hlíðum

Tíu metra breitt krapaflóð féll á hús í Bíldudal í gær. Það rann með fram varnargarði sem reistur var árið 2009, og féll á hús við Lönguhlíð, sem ekki er varið af garðinum og var keypt af sveitarfélaginu þegar garðurinn var reistur.

Hægari vindur í dag

Gert er ráð fyrir að veðrið sé að mestu að ganga yfir en enn er nokkur hætta á vatnselg og flóðum. Spáð er hægari vindi í dag og að síðdegis verði vindhraðinn 8-15 metrar á sekúndu. Dálítil slydda sunnan- og vestanlands en bjart norðaustanlands.