Ægir Þór fer til Spánar

29.02.2016 - 19:41
Ægir Þór Steinarsson, landsliðsmaður í körfubolta og leikmaður nýbakaðra bikarmeistara KR, er á leið frá KR til spænska liðsins Huesca. Ægir Þór er lykilmaður í liði KR, sem situr í efsta sæti Dominosdeildar karla og brotthvarf hans talsverð blóðtaka fyrir KR.

Ægir Þór hefur skorað 11,4 stig að meðaltali í leik í vetur og gefið 6,8 stoðsendingar og verið einn lykilmanna KR-liðsins í vetur. Hann gerir samning til loka leiktíðarinnar við Huesca sem situr í 5. sæti næstefstu deildar á Spáni og er í harðri baráttu um að komast upp í efstu deildina sem er sú sterkasta í Evrópu.

„Þetta snýst ekki um samning heldur tækifæri. Tækifærin koma ekki oft og þegar þau koma þá þarf maður að hoppa á þau,“ segir Ægir Þór í samtali við RÚV.

Ægir Þór var ekki með klásúlu í samningi sínum við KR um að losna ef tilboð kæmi að utan en Böðvar Guðjónsson, formaður meistaraflokksráðs KR, segir aldrei hafa komið til greina að standa í vegi fyrir Ægi.

„Það hefði verið vont bragð í munninum ef maður hefði sagt nei við þessu. Þetta er tækifæri sem Ægir er að fá og við styðjum hann í því. Svo þegar hann er búinn með sinn feril úti þá kemur hann aftur í KR,“ sagði Böðvar.

Nánar má heyra í Ægi og Böðvari í myndbandinu hér að ofan

Mynd með færslu
Jón Júlíus Karlsson
íþróttafréttamaður
Einar Örn Jónsson
íþróttafréttamaður