Æfingar hafnar fyrir Eurovision – sjáðu brot

30.04.2017 - 13:42
Mynd með færslu
Svartfellingurinn Slavko Kalezić bregður á leik með fléttuna sína.  Mynd: Andres Putting  -  eurovision.tv
Þrátt fyrir að Svala og íslenski Eurovision-hópurinn komi ekki til Kænugarðs fyrr en í kvöld eru aðrir keppendur byrjaðir að æfa sín atriði á stóra sviðinu í tónleikahöllinni þar í borg.

Undankeppnirnar í Eurovision fara fram 9. og 11. maí en Ísland tekur þátt í þeirri fyrri. Hér gefur að líta þau lönd sem eru þegar búin að æfa og brot úr misskrautlegum atriðum þeirra. Hægt er að finna fleiri slík, viðtöl við flytjendur og fróðleik um keppnina á heimasíðu hennar.

Hinn svartfellski Slavko Kalezić skartar ægilangri fléttu sem hann sveiflar til og frá af miklum móð í atriðinu.
Söngkonan Blanche kemur fram fyrir hönd Belgíu en hún er einnig höfundur lagsins, City Lights.
Robin Bengtsson gengur á staðnum eins og enginn sé morgundagurinn í atriði Svíþjóðar.
Hin albanska Lindita syngur lagið World en hún er einnig einn af höfundum þess.
Fulltrúi Georgíu er söngkonan Tamara Gachechiladze.
Ástralir taka þátt í Eurovision í þriðja skipti í ár og það er hinn 17 ára gamli Isaiah sem flytur lag þeirra, Don't Come Easy.