Æfa árásir á æðstu ráðamenn og kjarnavopnabúr

07.03.2016 - 04:58
epa05193631 US Army soldiers and multiple launcher rocket system (MLRS) deploy for their regular field training exercise near the demilitarized zone (DMZ) in Paju, in the Gyeonggi-do Province, South Korea, 04 March 2016.  North Korea leader Kim Jong-Un
 Mynd: EPA
17 þúsund bandarískir hermenn og um 300 þúsund suður-kóreskir hófu sameiginlegar heræfingar ríkjanna í Suður-Kóreu í nótt, þrátt fyrir hótanir Norður-Kóreu um kjarnorkuárás. Áhersla æfinganna er stuðningur við nákvæma árás á æðstu leiðtoga Norður-Kóreu að sögn suður-kóresku Yonhap fréttastöðvarinnar.

Auk hermannanna, sem hafa ekki verið fleiri á kóreskri grund í um 40 ár, nota Bandaríkjamenn kjarnorkuknúið flugmóðurskip, kjarnorkuknúinn kafbát, tankflugvél og B-2 orrustuþotu í æfingarnar. 

Samkvæmt heimildum Yonhap frá suður-kóreska hernum er æfingin eftir áætlun sem nýlega var undirrituð. Þar skuldbundu ríkin sig um að æfa samhæfðar aðgerðir gegn æðstu ráðamönnum Norður-Kóreu og árásum á kjarnorku- og flugskeytavopnabúr þeirra ef til stríðs kemur.

Æfingarnar eru talsvert umfangsmeiri en undanfarin ár vegna nýlegra tilrauna Norður-Kóreu með kjarnavopn og langdræg flugskeyti. Refsiaðgerðir gegn þeim voru hertar vegna tilraunanna sem hafa gert þarlend stjórnvöld ævareið. Kim Jong-Un bað herinn um að gera kjarnavopnabúr ríkisins tilbúið til árásar og hefur hótað fyrirbyggjandi árásum á suður-kóresk og bandarísk skotmörk láti ríkin verða af heræfingunni.

Hótanir af þessu tagi eru alvanalegar þegar árlegar sameiginlegar heræfingar Bandaríkjanna og Suður-Kóreu hefjast.