Aðstæður að verða hættulegar börnum

24.03.2016 - 16:45
epa05227428 A migrant tries to push a pram through mud at the refugee camp on the Greek-Macedonian border in Idomeni, Greece, 23 March 2016. Migration restrictions along the so-called Balkan route, the main path for migrants and refugees from the Middle
 Mynd: EPA
Um tíu þúsund flóttamenn hafast við nærri landamærum Grikklands að Makedóníu. Þar af eru um fjögur þúsund börn, meirihluti þeirra yngri en fimm ára. Læknar segja að ástandið í flóttamannabúðunum sé að verða hættulegt börnunum.

Ung móðir frá Sýrlandi er einn flóttamannanna í búðunum. Hún hefur áhyggjur af heilsu nokkurra mánaða gamals sonar síns. „Hann er með sýkingu og hita, niðurgang og kastar upp. VIð fórum með hann af sjúkrahúsi í gær og héldum að hann væri búinn að ná sér en hann er enn veikur. Öll börnin mín eru veik.“

Angeliki Kosmotopoulo barnalæknir segir að læknar hafi séð mörg tilfelli þar sem börn eru með króníska sjúkdóma eins og astma eða erfiða lungnasjúkdóma. Aðstæðurnar sem flóttamennirnir búi við séu heilsuspillandi. 

Babar Baloch, hjá flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna, segir að margar fjölskyldur með ung börn séu vikum saman, dag eftir dag úti í kulda og rigningu undir berum himni. Tjöldin sem fjölskyldurnar hafi séu lítil og veiti ekki nægjanlegt skjól.  „Lausnin er að flytja þá sem eru hérna megin við landamærin í almennilegar flóttamannabúðir þar sem hægt er að aðstoða fólkið eins og manneskjur og sýna því virðingu.

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV