Adidas hættir samstarfi við IAAF

24.01.2016 - 23:21
epa04797982 Usain Bolt from Jamaica (C) runs in the  mens 200 meter race at the Adidas Grand Prix Track & Field Competition at Icahn Stadium in New York, New York, USA, 13 June 2015. Bolt won the race with a time of 20.29.  EPA/PETER FOLEY
Adidas er stærsti styrktaraðili IAAF. Íþróttamennirnir á myndinni eru ekki tengdir við lyfjahneyksli.  Mynd: EPA
Adidas ætlar að slíta styrktarsamningi sínum við Alþjóða frjálsíþróttasambandið, IAAF, fjórum árum áður en samningurinn rennur út. Breska ríkisútvarpið BBC hefur þetta eftir nafnlausum heimildamanni.

Lyfjahneyksli skekur frjálsíþróttaheiminn og hefur IAAF lítið gert til þess að sporna gegn því. Adidas er stærsti styrktaraðili sambandsins og yrði riftun samnings þeirra enn eitt áfallið fyrir Sebastien Coe, forseta IAAF. Samkvæmt heimildum BBC myndi riftunin þýða tugmilljóna dala tekjutap fyrir sambandið. Hvorki Adidas né IAAF hafa viljað tjá sig um málið.

Heimildir BBC herma að þegar í nóvember hafi Adidas sagt IAAF að fyrirtækið væri að íhuga riftun samningsins. Ástæðan var niðurstaða rannsóknar alþjóða lyfjasambandsins, WADA, sem sýndi meðal annars lyfjagjöf af hendi ríkisins í Rússlandi. Fyrr í þessum mánuði sýndi Dick Pound, formaður nefndarinnar, niðurstöðu annarrar skýrslu sem sýndi að IAAF var viðriðið hneykslið undir stjórn Lamine Diack, fyrrum forseta sambandsins.

Treystir engum betur en Coe

Adidas lítur á niðurstöður WADA sem brot á samningi og ákvað því strax að slíta samningum við IAAF að sögn BBC. Ekki er ljóst hvort IAAF ætlar að láta reyna á samningsslitin fyrir dómstólum en lögmenn Adidas eru tilbúnir til varnar.
Á stuttri forsetatíð hefur Coe verið undir mikilli pressu. Hann tók við embætti af Diack í ágúst í fyrra, en hafði fram að því verið einn fjögurra varaforseta sambandsins í sjö ár. WADA segir að stjórn IAAF hljóti að hafa vitað af lyfjahneykslinu á þeim tíma. Pound hefur þó látið hafa það eftir sér að hann treysti engum betur til þess að stjórna IAAF en Coe.