Mynd með færslu
08.09.2017 - 07:23.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Fólk er fífl með Botnleðju er ein af allra bestu rokkplötum Íslandssögunnar og hefur nú verið endurútgefin á vínyl af Record Records. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

„Á nýrri plötu sveitarinnar, sem heitir því hlýlega nafni Fólk er fífl, hefur hljómsveitin tekið gríðarlegt stökk fram á við og sent frá sér framúrskarandi vel heppnaða plötu, vandaða og fjölbreytta rokkskífu, þar sem allt helst í hendur, spilagleði, hljómur og frumleg hugsun.“ Ég hefði ekki getað orðað það betur sjálfur en hér heldur Árni Matthíasson um penna, í dómi um þessa plötu árið 1996 í Morgunblaðinu, er hún var nýkomin út.

Upphafslag plötunnar.

Orðspor

Það er oftast nær ástæða fyrir því að ákveðnum nöfnum er veifað oftar en öðrum í tónlistarsögunni og Botnleðja stendur algerlega undir því orðspori sem hún býr yfir. Ein allra, allra besta rokksveit sem fram hefur komið hérlendis og seinni hluti tíunda áratugarins var hennar að mörgu leyti (þessi áratugur var frjór hvað nýbylgjurokkið varðaði og margar gæðasveitir starfandi samhliða Leðjunni, þið vitið hver þið eruð!)

Gamla íslenska dægurlagið Ég er frjáls með Facon frá Bíldudal fékk að fljóta með á plötunni.

Fyrstu þrjár plötur Botnleðju eru ótrúlegar. Það er bara þannig. Magnaður þríleikur og höfum það á hreinu að þó að fullt af sveitum hafi verið að gera framúrskarandi hluti á sama tíma komst engin nálægt Botnleðju hvað ofsakenndan sprengikraft og nálægt því sturlaða keyrslu varðaði. Allt var þetta blessunarlega fangað á plötum. Fyrsta platan, Drullumall, var hrá og ofsafengin og Botnleðja varð fræg fyrir að vera ein af fáum Músíktilraunasveitum sem náði að klára plötu á þeim hljóðverstímum sem henni var úthlutað. Eins og segir í dómi Árna Matt, á Fólk er fífl voru hlutirnir teknir lengra og svo enn lengra á þeirri þriðju, Magnyl (1998).

Þvílíkt orkutríó

Skoðum tónlistina aðeins. Hún er algerlega bundin þeim tíma sem hún var sköpuð á. Amerískt grugg liggur undir smíðunum, Nirvana já en jafnvel meira Melvins og Pavement líka. Plöturnar sem var verið að hlusta á þessum tíma, allt blæðir þetta inn (Primus svífa þarna um t.d.). Útfærslan er hins vegar nokk einstök og ástæðan fyrir því að Botnleðja skar sig frá meðalmennskunni. Brjálæðisöskur Heiðars, söngvara og gítarleikara, í bland við melódískan og nánast barnslegan söng. Helþéttur bassaleikur Ragga, hins algera „bassaleikara“ og svo orkubúntið Halli á bakvið trommusettið. Þvílíkt orkutríó.

Óður Botnleðjupilta til hljóðfærisins sem reynt var að kalla svuntuþeysi, en hefur í seinni tíð verið kallað hljóðgervill.

Fólk er fífl er fjölbreytt skífa, aldrei slakar hún á klónni og menn auðheyranlega að springa úr sköpunargleði, hræra í tómt flipp þegar þeim hentar og allt gengur það upp. Eitt af einkennum Botnleðju, sem þeir unnu svo glæsilega með, eru þessi barnagæluáhrif, þar sem brostið er í svona „na na na na“ leikskólavísur inn í miðri rokkkeyrslunni. Keyrsla sem er svo aldrei á kostnað lagasmíðanna, sem eru ávallt melódískar og grípandi. Hvað getur farið úrskeiðis? Ekkert!

Fögnuður

Fólk er fífl lúrði í mörgu unglingsherberginu og var þar réttilega á stalli. Umslagið er þá punkturinn yfir i-ið, í það var hrært á síðustu stundu en það fangar titillinn svo gott sem fullkomlega.  Ég fagna þessari útgáfu en það er engu að síður undarlegt að henni fylgja engar upplýsingar; um hljóðfæraleik, upptökur og slíkt. Þetta er nokkuð bagalegt en auk þess var lag að hlaða í texta af tilefninu eða „liner notes“, setja þennan merkisgrip í sögulegt samhengi o.s.frv.. Ég nefni þetta í góðsemd, enda skilst mér að fleiri endurútgáfur af þessum toga séu í burðarliðnum.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Og er þá söngbjörninn unninn

Tónlist

Rokkað í baksýnisspeglinum

Menningarefni

Nýbylgjuskotið sumarpopp

Menningarefni

Ham er besta hljómsveit í heimi