Áætlun um íslensku í stafrænum heimi

19.06.2017 - 18:57
Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay
Ný áætlun um máltækni fyrir íslensku var kynnt í dag. Áætlunin á meðal annars að tryggja að raddstýrð tæki bæði skilji og tali íslensku. Hún á að hefjast af fullum þunga á næsta ári og segir prófessor í málfræði að ekki sé hægt að bíða mikið lengur. Menntamálaráðherra segir að samstaða sé í ríkisstjórn um að fara í átakið.

 

Snjalltækin tala ekkert sérstaklega góða íslensku, og skilningurinn er líka takmarkaður. Og af þessu hafa menn haft áhyggjur, enda notar ungt fólk þessi tæki mikið. Í dag var kynnt verkáætlun sem starfshópur hefur sett saman um máltækni fyrir íslensku til að bæta úr þessu. Hún snýst um að byggja upp innviði fyrir fjórar lausnir; Talgreini, talgervil, þýðingarvél og málrýni, sem leiðréttir málfar og stafsetningu.

Anna Björk Nikulásdóttir formaður starfshópsins segir að nú sé góður tími til að fara í þessa vinnu. „Það sem vinnur með okkur núna er þróunin í tækninni undanfarin örfá síðustu ár, sem gerir okkar vinnu núna mjög fýsilega.“

Starfshópurinn vill að sérstök miðstöð verði sett um áætlunina til að samhæfa alla vinnuna í þessum efnum. „Það þarf að halda utan um það og það þarf að sjá til þess að það sem er þróað innan stofnana og úti í fyrirtækjunum komist í vöru og til notenda og við getum talað íslensku við tækin.“

Starfshópur um menntun í máltækni leggur til að meistaranám í greininni verði eflt og endurskipulagt. Eiríkur Rögnvaldsson formaður þess hóps telur góða möguleika á að koma íslenskunni inn í hinn stafræna heim. „En það má ekkert mikið seinna vera. Ég held að við höfum ágæta möguleika til þess að ná í skottið á þróuninni en þá verðum við líka að taka þetta mjög alvarlega og mér sýnist og vona að stjórnvöld ætli að gera það.“

Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra fullyrðir að samstaða sé í ríkisstjórninni um að efla íslenskuna. „Ég hef ekki trú á nokkru öðru en því að þetta verkefni sem hófst í raun fyrir ári síðan, rétt tæpu, að við munum koma því með einhverjum hætti til framkvæmda.“

 

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV