Á yfir höfði sér áminningu vegna fæðubótarefna

05.01.2016 - 21:06
Ljósmóðir sem bauð konu sem var hjá henni í mæðravernd heim til sín til að selja henni fæðubótarefni sýndi af sér ótilhlýðilega framkomu, að mati landlæknis. Konan segir ljósmóðurina hafa sagt sér að hún fengi að öllum líkindum fæðingarþunglyndi ef hún ekki keypti og neytti þessara drykkja. Landlæknir hefur sent ljósmóðurinni bréf þar sem kemur fram að hún eigi yfir höfði sér áminningu.

Þegar ég hugsa til baka og minnist orða hennar um að ég myndi að öllum líkindum fá fæðingarþunglyndi sem myndi hafa áhrif á hvernig ég gæti hugsað um barnið mitt, blöskrar mér illilega enn í dag. Ég þjáðist ekki af fæðingarþunglyndi eftir meðgöngur mínar og get svo sannarlega hugsað um börnin mín. Það er svo ljótt og ófagmannlegt að halda því fram að móðir geti ekki hugsað um barnið sitt nema jú að hún noti [þetta fæðubótarefni] samviskusamlega.

Þannig lýsir móðirin samskiptum sínum við ljósmóðurina, en hún kýs að láta ekki nafns síns getið. Konan var í mæðraeftirliti á Landspítalanum og var meðgangan skilgreind sem áhættumeðganga þar sem hún hafði fengið meðgöngueitrun á fyrri meðgöngu og hafði glímt við andleg og líkamleg veikindi. Í febrúar 2014 var konan í mæðraskoðun hjá ljósmóðurinni sem hafði sinnt henni síðustu þrjátíu vikur. Þá bauð hún konunni að koma heim til sín daginn eftir því hún væri með eitthvað sem gæti hjálpað henni. Þegar konan kom þangað á umsömdum tíma kom í ljós að ljósmóðirin vildi selja henni fæðubótarefni.

Í kvörtun konunnar til landlæknisembættisins segir:

Það kom mér algerlega í opna skjöldu að hlusta á hana reifa viðkvæmar og sárar trúnaðarupplýsingar um mína sjúkrasögu í þeim tilgangi að selja mér næringardrykki fyrir tugi þúsunda. [Hún] sló því föstu að ég myndi fá fæðingarþunglyndi miðað við mína sögu og að tilgreindir drykkir myndu hjálpa mér. [Hún] lagði til að taka einfalda blóðprufu í bókuðum mæðraverndartíma á Landspítalanum, sem send er erlendis til söluaðila drykkjanna til greiningar í þeim tilgangi að sýna fram á að undirrituð þyrfti á næringardrykknum að halda.

Ég á fyrri sögu um áföll og í þessum aðstæðum fraus ég alveg og þorði ekki öðru en að kaupa þennan drykk af henni...Ég sem sagt rétti fram VISA-kortið til að þess að losna þaðan út. Ég var andvaka af áhyggjum um nóttina.

Konan greiddi 167 evrur eða 26.532 krónur á þess tíma gengi og síðan átti að greiða 7-8 þúsund krónur á mánuði í eitt ár. Konan lýsir því svo hvernig hún hafi náð að safna kjarki og hringja í ljósmóðurina.

og sagði henni hversu ósiðlegt þetta væri. Hún sagði samt að hún gæti ekki afpantað vöruna fyrir mig þar sem búið væri að ganga frá greiðslu....Ég þurfti að hringja í hana til að ganga úr skugga um hvort hún hefði afpantað þessa vöru viku síðar og sagði hún að hún hefði getað afpantað þetta en fannst mjög einkennilegt að ég vildi ekki nota vöruna.

Móðirin fór einu sinni eftir þetta í eftirlit til ljósmóðurinnar og hafði þá manninn sinn með en bað svo um aðra þar sem henni þótt þungbært að hitta ljósmóðurina. Tíu dögum eftir fundinn heima hjá ljósmóðurinni fæddist barnið og segist konan fljótlega hafa náð fullri heilsu. Eftir að hafa séð umfjöllum Kastljóss um fæðubótarefni og fleira þar sem jafnvel hreyfihömluðu fólki var lofað lækningu, ákvað móðirin að senda kvörtun til landlæknis. Það gerði hún í mars í fyrra.

Margrét I. Hallgrímsson, þáverandi yfirljósmóðir, segist hafa rætt við umrædda ljósmóður og tjáð henni að

það væri alls óviðeigandi að blanda saman þjónustu við skjólstæðinga í starfi á Landspítalanum og á sama tíma sölumennsku við þá sem hún stundaði í eigin frítíma.

Margrét segir enn fremur að eftir þetta eina atvik hafi hún ekki fengið fleiri kvartanir.
Ljósmóðirin sjálf svaraði landlækni þannig:

Ég hafði verulegar áhyggjur af líðan [konunnar] og taldi hyggilegt að bjóða aukna aðstoð til að tryggja að hún fengi sem besta umönnun, bæði andlega og líkamlega. 

Þá segist ljósmóðirin ekki hafa brotið nein lög:

heldur þvert á móti leitaðist ég við að veita skjólstæðingi mínum aukna þjónustu. Ég taldi, í ljósi þeirra gagna sem til voru um [móðurina], þörf á því að bregðast við og stuðla að bættri heilsu hennar.

Landlæknir fellst ekki á þetta. Hann skilaði áliti 22. desember síðastliðinn og þar er niðurstaðan skýr:

Kvartandi var skjólstæðingur Landspítala...Það samræmist engan veginn hlutverki heilbrigðisstarfsmanna á stofnunum að bjóða sjúklingum heim til sín í því skyni að að tryggja að þeir fái „sem besta umönnun, bæði andlega og líkamlega“. Að mati landlæknis fellur slík háttsemi undir ótilhlýðilega framkomu skv. 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu auk þess að með háttseminni fór [ljósmóðirin] út fyrir verksvið sitt.

Ennfremur segir:

Í kvörtun kemur fram að [ljósmóðirin] hafi slegið því föstu að kvartandi myndi fá fæðingarþunglyndi og að söluvaran sem var til umræðu […] myndi hjálpa henni. Að mati landlæknis eru fullyrðingar heilbrigðisstarfsmanna af þessu tagi ótilhlýðilegar auk þess að standast ekki ákvæði laga sem kveða á um skyldur heilbrigðisstarfsmanna.

Landlæknir vildi ekki veita Kastljósi viðtal um málið. Samkvæmt heimildum Kastljóss hefur ljósmóðirin fengið annað bréf frá landlækni þar sem henni er greint frá því að hún eigi yfir höfði sér áminningu. Ljósmóðirin hefur frest til 20. janúar til að andmæla því. Kastljós bauð ljósmóðurinni að koma í viðtal en það vildi hún ekki.

Áslaug Valsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, hafði ekki frétt af málinu þegar Kastljós hafði samband við hana. 

Ég hef ekki séð álitið frá landlækni og mér finnst eins og þú lýsir þessu fyrir mér þá er ég ekki sátt við þetta, þetta er ekki eitthvað sem ljósmæður vilja standa fyrir.

Það er náttúrulega þannig að sala á fæðubótarefnum, það geta allir selt það og hvað fólk gerir í sínum frítíma er auðvitað hverjum og einum frjálst. Ef maður á að horfa á þetta blákalt, þá samt finnst mér að ef maður er heilbrigðisstarfsmaður þá notar maður ekki skjólstæðinga sem maður kynnist í vinnu til að selja þeim efni.

Við eigum náttúrulega að ráðleggja mæðrum það er hluti af starfinu, ráðleggingar um allt mögulegt um mat um bætiefni og allt það. 

Eru mörkin óljós?

Nei, ég hef ekki talið það að þau séu óljós og ég held að þau séu það ekki. Maður selur ekki skjólstæðingum sínum fæðubótarefni, það er bara þannig.

 Ljósmóðirin var í launalausu leyfi frá starfi sínu á Landspítalanum í eitt ár, frá því í september 2014 til loka ágúst 2015. Ekki fæst uppgefið hjá spítalanum hvort leyfið tengist kvörtuninni.

Kastljós óskaði eftir viðbrögðum frá Landspítalanum en fékk aðeins skriflegt svar í tölvupósti. Þar kemur fram að spítalanum sé

óheimilt að tjá sig um mál einstakra starfsmanna. Hins vegar er hægt að upplýsa að kvartanir sem skjólstæðingar okkar leggja fram gagnvart starfsfólki spítalans eru teknar alvarlega, þær kannaðar vel og brugðist við eins og tilefni er til hverju sinni.

Þá kemur fram að Landspítalinn fékk álit landlæknis ekki sent fyrr en í gær, hálfum mánuði eftir að það var gefið út. Þegar Kastljós kannaði hvernig á því stæði, fengust þau svör hjá landlæknisembættinu að gleymst hefði að senda spítalanum álitið.

Ennfremur fengust þær upplýsingar frá embættinu að fátítt væri að kvartanir berist og að landlæknir gefi út álit vegna heilbrigðisstarfsmanna sem misnoti aðstöðu sína og fari út fyrir verksvið sitt. Heilbrigðisstarfsmenn megi stunda sölu á ýmsum varningi en ekki tengja söluna við meðferð sjúklings. Landlæknisembættinu ber ekki skylda til þess að senda Ljósmæðrafélaginu álitið, segir Áslaug. 

Þau mál sem fara til landlæknis við í félaginu fréttum ekki af þeim nema viðkomandi ljósmóðir láti okkur vita. Við fáum oftast ekki fréttir öðru vísi og það má kannski segja að það væri gott fyrir stéttina í heild að þessar tilkynningar bærust að einhverju leyti til félagsins svo það væri þá hægt að taka afstöðu og skoða málið innan félagsins.

Við munum fjalla um þetta í stjórninni og þetta er í fyrsta skipti sem eitthvað svona kemur upp þannig að í rauninni vitum við ekki alveg hvernig við eigum að tækla þetta.

Ég held að þetta sé alls ekki algengt. Ég held að þetta sé einstakt tilfelli og ég vona að rýri ekki trú almennings á stéttinni.

 

Mynd með færslu
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Kastljós