Á leið til Kanada með fölsuð vegabréf

17.01.2016 - 17:16
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi á föstudag, í tveimur aðskildum málum, einn Sýrlending og einn mann frá Síerra Leóne í 30 daga fangelsi fyrir að framvísa vegabréfum sem ekki voru á þeirra nafni við komuna til landsins. Mennirnir komu til landsins með tveggja daga millibili og voru báðir á leiðinni til Kanada.

Eldri maðurinn, sem er rúmlega þrítugur sýrlenskur ríkisborgari, kom til landsins sjöunda janúar og framvísaði grísku vegabréfi. Yngri maðurinn, sem er rétt rúmlega tvítugur og frá Síerra Leóne, framvísaði frönsku vegabréfi við komuna til landsins níunda janúar.

Við ákvörðun dóms yfir þeim var litið til þess að þeir játuðu brot sitt. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhald sem þeir hafa sætt frá 8. janúar annars vegar og 10. janúar hins vegar.

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV