9,1% barna á Íslandi býr við skort

20.01.2016 - 10:30
Börn í Vladivostok í Rússlandi fagna alþjóðlegum degi barna
 Mynd: RIA Novosti
9,1% barna á Íslandi líður efnislegan skort. Gera má ráð fyrir að yfir 6.100 börn á aldrinum 1-15 ára líði efnislegan skort hér á landi. Þetta er meðal niðurstaðna úr skýrslu UNICEF á Íslandi sem kynnt var í morgun. Í skýrslunni kemur fram að efnislegur skortur barna hafi meira en tvöfaldast frá árinu 2009 til 2014.

Í skýrslunni er skortur meðal barna greindur út frá greiningaraðferð UNICEF - Barnastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Greiningin byggir á gögnum úr viðauka við lífskjararannsókn ESB, sem safnað var sérstaklega árin 2009 og 2014. Upplýsingarnar hafa því legið fyrir en ekki verið greindar með þessum hætti áður. 

Greining UNICEF nær til sjö sviða og eru niðurstöður hennar eftirfarandi:

  • Húsnæði: Mestur skortur mældist á þessu sviði. 13,4% barna búa við skort hvað varðar húsnæðismál. Árið 2009 var hlutfallið 8,9%. Til að börn teljist ekki búa við skort þarf að vera eitt sameiginlegt rými á heimilinu og ákveðinn fjöldi herbergja miðað við fjölda heimilisfólks, aldur þess og kyn.
  • Félagslíf: 5,1% barna geta ekki haldið upp á viðburði, svo sem afmæli og boðið vinum heim. Árið 2009 mældust 2,1% barna búa við skort á þessu sviði 
  • Klæðnaður: Skortur er talinn 4,9%. Spurt var hvort barnið eigi föt sem það hafi fengið ný og hvort það eigi a.m.k. tvö pör af skóm.
  • Afþreying: 4,9% barna líða skort hvað varðar afþreyingu, samanborið við 2,0% árið 2009.
  • Næring: 3,2% líða skort á þessu sviði. Staðan er metin út frá því hvort börn fái ávexti eða grænmeti daglega og hvort þau fái a.m.k. eina heita máltíð á dag.
  • Menntun: 3,0% eru talin líða skort. Spurt var hvort barnið geti tekið þátt í viðburðum á vegum skólans sem kosta peninga og hvort það hafi aðstöðu til að læra heima.
  • Upplýsingar: Spurt var um aðgang að tölvu og sjónvarpi. 1,3% búa við skort. 

Þau börn sem skortir tvennt eða fleira af listanum eru sögð líða skort. Börn sem skortir þrennt eða fleira eru sögð líða verulegan skort. Um 6.100 börn búa við skort samkvæmt þessari skilgreiningu. Nær 1.600 börn búa við verulegan skort.

Aðeins 60,6% töldust ekki búa við skort á neinu þessara sviða, árið 2014. Fimm árum áður, árið 2009, voru þetta 77,1%.

Dæmi eru um að börn líði skort á öllum sviðunum sjö sem nefnd eru hér að ofan.

Frá kynningarfundi á skýrslu UNICEF á Íslandi í Þjóðminjasafninu í morgun. Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson/RÚV.

Mikill munur er á því hve líklegt er að börn líði skort, eftir menntun foreldra, stöðu á húsnæðismarkaði og atvinnumarkaði. Börn foreldra með grunnmenntun eru mun líklegri til að líða skort en börn foreldra sem lokið hafa háskólanámi. Börn leigjenda eru verr sett en börn fólks sem býr í eigin húsnæði. Börn lágtekjufólks líða frekar skort en börn efnaðra fólks. Og börn fólks í hálfu starfi eða minna líða frekar skort en börn fólks sem er í meira en hálfu starfi. 

UNICEF á Íslandi segir „óásættanlegt að ekki sé fylgst markvisst með skorti meðal barna hér á landi“ og mælist til að Hagstofunni verði fengið það verkefni.

 

Hægt er að skoða skýrslu UNICEF á Íslandi og gögnin sem hún byggir á, á vef samtakanna.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV