88,7 milljónir í að efla sendiráðið í Peking

13.09.2017 - 17:01
epa05074890 A view of a hazy horizon along a main road in Beijing, China, 19 December 2015. Beijing issued a red alert for smog on 18 December 2015, urging schools to close and residents to stay indoors for the second time in 10 days. Restrictions begin
 Mynd: EPA
Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, sem kynnt var í gær, er gert ráð fyrir að fjárheimild til utanríkisþjónustunnar verði aukin um 88,7 milljónir til að efla sendiráð Íslands í Peking, höfuðborg Kína.

Í fjárlagafrumvarpinu er þetta sagt gert þar sem áætlanir gera ráð fyrir að vegabréfsáritunum þar fjölgi mikið milli ára vegna fjölgunar ferðamanna á leið til Íslands.

Í frétt sem birtist á vefnum turisti.is á síðasta ári kom fram að kínverskum ferðamönnum hefði fjölgað hlutfallslega hraðar hér á landi en ferðamönnum frá öðrum löndum. Þess væru dæmi að hótelin væru farin að mæta sérþörfum þessa stækkandi hóps en Asíumarkaður er til að mynda sagður gera kröfu um baðkör á hótelherbergjum, inniskó og baðsloppa.

Samkvæmt síðustu tölum frá Ferðamálastofu komu rúmlega 12 þúsund ferðamenn frá Kína hingað til lands í ágúst en það eru mun fleiri en komu frá Hollandi, Svíþjóð, Póllandi og Danmörku.

Fram kom í umfjöllun Japan Times í byrjun ársins að ferðalög til fjarlægra og lítt snortinna staða eins og Íslands væru að verða sífellt vinsælli meðal Kínverja þar sem þeir vildu komast í frí frá mengun kínverskra stórborga.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV