80.000 hælisleitendum vísað frá Svíþjóð

28.01.2016 - 00:26
Mynd með færslu
 Mynd: SVT
Svo kann að fara að allt að 80.000 manns, sem leituðu hælis í Svíþjóð á síðasta ári, verði vísað úr landi á næstu misserum. Þetta staðfesti Anders Ygeman, innanríkisráðherra Svíþjóðar, í viðtali við sænska ríkissjónvarpið. Þetta er nær helmingur allra þeirra sem sóttu um hæli í Svíþjóð í fyrra, en þeir voru 163.000.

Ygeman segir að miðað við hlutföllin í málum þeirra hælisleitenda, sem þegar hafa verið afgreidd, þá megi búast við því að á bilinu 60 - 80.000 verði synjað um hæli, og þeim þurfi að koma úr landi með einhverjum hætti. Ríkisstjórnin hefur falið Innflytjendastofnun og lögreglu að undirbúa brottvísanirnar.

Samkvæmt Ygeman verða leigðar sérstakar flugvélar til að flytja fólkið úr landi í stórhópum, til að spara fé. Hingað til hefur fólk sem vísað er frá Svíþjóð oftast verið sent utan með áætlunarflugi í fylgd lögreglu. Ygeman segir verkefnið stórt, krefjandi og dýrt, en það verði að takast á við það engu að síður. Reiknað er með að brottvísanirnar hefjist fyrir alvöru öðru hvoru megin við næstu áramót.