66% öldrunarsjúklinga fá ekki næga næringu

04.01.2017 - 13:36
Mynd með færslu
 Mynd: ??  -  ruv.is
Um tveir þriðju sjúklinga á öldrunardeildum Landspítalans á Landakoti fá hvorki næga orku né prótín og er því hætt við vannæringu, samkvæmt nýrri rannsókn. Höfundur hennar segir að spítalinn þurfi að bjóða þeim annars konar fæðu en nú er gert.

Niðurstöðurnar eru kynntar í meistararitgerð Katrínar S. Kristbjörnsdóttur við Háskóla Íslands. Hún skoðaði 178 sjúklinga og af þeim fengu 117 ekki þá næringu sem þeir þurftu.

Katrín komst að því að þeir innbyrðu ekki jafn mikla orku og þeir þyrftu á að halda - en grunnorkuþörf er 1.300 hitaeiningar. „Svokölluð heildarorkuþörf er töluvert hærri, þannig að þeir voru langt undir því sem þeir þurfa á að halda bara til að viðhalda þyngd og fullnægja sínum þörfum.“

Að auki neyta aldraðir ekki jafn mikilla próteina og ráðlagt er. Katrín segir að sjúklingarnir þurfi meira orku- og próteinbætt fæði, sem minnki þá matarskammtinn sjálfan. Matarþörf fólks sé misjöfn og oft missi fólk jafnvel matarlystina ef það sér of stóran skammt. „Í rauninni er ég að leggja áherslu á að það sé valin viðeigandi skammtastærð. Ekki bara að allir fái sjálfir þessa venjulegu stærð af skammti.“

Þá vill Katrín að hugað sé betur að forvörnum gegn vannæringu í stað þess að taka á vandamálinu þegar það er orðið slæmt, eins og oft er raunin þegar fólkið leggst inn á spítala. En spítalinn geti einnig gert sitt: „Það þarf aðallega að skoða þetta betur, fylgja sjúklingunum betur eftir, gefa þeim orku- og próteinbætt fæði, fylgjast með hvað þeir eru að borða og bæta millibita. Það er ýmislegt sem hægt er að gera til að reyna að bæta ástandið.“

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV