6. þáttur - Bláberjamúffur

09.04.2014 - 15:59
Mynd með færslu
Fljótlegar, ljúffengar og frábærar í hvaða veislu eða samkundu sem er.

Bláberjamúffur

2 hamingjusöm egg

½ tsk. vanilludropar eða vanilluduft

1 msk. lífrænt hunang

1 dl pálmasykur*

1 msk. vínsteinslyftiduft**

3 dl spelt*** (2 dl spelt og 1 dl malaðar möndlur?)

½ dl möndlumjólk

70 g fljótandi kókosolía eða 60 g brætt smjör

1½ dl bláber (þægilegt að nota frosin)

  1. Hitið ofninn í 180°C.
  2. Þeytið saman eggin, vanilludropana, hunangið, pálmasykurinn þangað til sæmilega létt og ljóst.
  3. Bætið vínsteinslyftidufti, spelti, möndlumjólk og olíu saman við og hræra.
  4. Setjið frosnu bláberin út í og hrærið mjög varlega og lítið.
  5. Setjið í muffinsform og bakið í um 10 mínútur.

* Kókospálmasykurinn hefur milt, sætt og ögn karamellukennt bragð og er sæta unnin úr blómum pálmatrjáa. Hann hefur aðeins sykurstuðul 35, sem er helmingi lægri sykurstuðull en venjulegur sykur hefur. Þetta þýðir að hann truflar blóðsykurinn minna en venjulegur sykur. Hann er þar að auki mjög steinefnaríkur. Mér finnst frábært að nota hann í eftirrétti og sætabrauð. Það má allsstaðar skipta venjulegum sykri út fyrir kókospálmasykur í sömu hlutföllum. Kókospálmasykurinn er auðvelt að þeyta (þurran) í flórsykur í blandara til dæmis. Stundum minnka ég ögn magnið af kókospálmasykrinum í uppskriftum og nota stevíu á móti. Hann er til í heilsuhillum margra stórmarkaða og í öllum heilsubúðum.

 

** Vínsteinslyftiduft: er lyftiduft sem má nota í allan bakstur eins og annað lyftiduft. Vínsteinslyftiduft er unnið úr svokölluðum vínsteini sem er hvíta duftið/saltið sem verður eftir innan á víntunnum þegar vínberjasafinn hefur gerjast í þeim. Svo er því blandað við maíssterkju og natrium carbonat til að gefa góða lyftiduftsblöndu. Þumalfingursreglan er 1 tsk vínsteinslyftiduft fyrir hver 100g af mjöli.

 

*** Spelt: er hveititegund sem fæst í flestum stórmörkuðum sem og heilsubúðum. Spelt er hreint ekki nýtt af nálinni. Spelt inniheldur meira prótein en hveiti en meira glúten líka. Spelt er vatnsleysanlegt og því fer það betur í maga hjá mörgum sem eru viðkvæmir í maga.