6 bækur sem þú ættir að lesa í mars

Bókmenntir
 · 
Bækur sem þú ættir að lesa
 · 
Listar
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
 Mynd: cc

6 bækur sem þú ættir að lesa í mars

Bókmenntir
 · 
Bækur sem þú ættir að lesa
 · 
Listar
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
06.03.2017 - 14:59.Vefritstjórn
Hér eru sex bækur sem menningarritstjórn RÚV mælir með að þú lesir í mars — nýjar bækur og eldri sem hafa lætt sér inn í umræðuna.

Þetta eru kannski ekki bækur sem þú verður að lesa, en þú versnar ekkert við það að fletta í gegnum þær.

Allt sem ég man ekki

Eftir Jonas Hassen Khemiri

Mynd með færslu
 Mynd: Bjartur

Ungur maður, Samuel að nafni, ferst í hryllilegum árekstri og ekki er víst hvort um er að ræða slys eða sjálfsvíg. Rithöfundur hefst handa við að púsla saman síðasta deginum sem hann dró andann og úr verður grípandi örlagasaga sprottin upp úr Stokkhólmi samtímans. Allt sem ég man ekki, eftir Jonas Hassen Khemiri, hlaut ein virtustu bókmenntaverðlaun Svía, Augustpriset, árið 2015. Í bókinni beitir hann meðölum krimmabókmennta til að fjalla um vináttu og ást, en einnig um stöðu flóttafólks og kynþáttahatur. Allt sem ég man ekki kom nýlega út í íslenskri þýðingu Þórdísar Gísladóttur.

Frelsi

Eftir Lindu Vilhjálmsdóttur

Mynd með færslu
 Mynd: Mál og menning

Frelsi er önnur tveggja bóka sem í ár eru tilnefndar eru fyrir Íslands hönd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Þetta er kröftugt og reitt verk, þó sjálf bókin láti ekki mikið fyrir sér fara. Hér er Linda hlutlægari en oft áður og pólitísk, en hún segir bókina hafa orðið til sem viðbragð við afbökun á hugtakinu „frelsi“. Bókin kom út 2015.

Norse Mythology

Eftir Neil Gaiman

Mynd með færslu
 Mynd: W.W. Norton and Co.

Norræn goðafræði hefur fengið byr undir báða vængi síðustu ár þökk sé ofurhetjukvikmyndum Marvel þar sem þrumugoðið Þór, Loki og Óðin koma fyrir. Neil Gaiman, rithöfundurinn knái að baki Sandman myndasagnanna og American Gods, hyggst færa hinum enskumælandi heimi ögn dýpri mynd af goðunum í bókinni Norse Mythology. Nýverið sást til hans hér á landi, þar sem hann var við tökur á heimildamynd sem er ætlað að kynna sjónvarpsþáttaröð byggða á American Gods, sem byggir einmitt að miklu leyti á norrænni goðafræði.

The Handmaid's Tale – Saga þernunnar

Eftir Margaret Atwood

Mynd með færslu
 Mynd: McClelland/Stewart

Þessi hérumbil 30 ára gamla vísindaskáldsaga Margaret Atwood hefur komist ofarlega á baug eftir kjör Donalds Trumps. Hún er raunar á meðal nokkurra bóka, sem eiga það sameiginlegt að varpa fram myrkri framtýðarsýn og fjalla um einræði, sem skyndilega fóru að seljast í auknum mæli eftir að hann tók við embættinu. Í næsta mánuði hefjast sýningar á sjónvarpsþáttum byggðum á bókinni. Þeir sem vilja vera málsmetandi þegar velt er vöngum yfir hvort þættirnir séu betri eða verri en bókin þyrftu því að grípa í hana. Hún kom út í íslenskri þýðingu Áslaugar Ragnars 1987 og er bók vikunnar á Rás 1.

Tjöllum okkur í rallið

Eftir Guðmund Andra Thorsson

Mynd með færslu
 Mynd: JPV

Tjöllum okkur í rallið, líkt og Frelsi Lindu Vilhjálmsdóttur, er tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í ár. Hér setur Guðmundur Andri Thorsson saman fallega og innilega bók sem byggir á ljósmyndum og ýmsu efni sem faðir hans, rithöfundurinn Thor Vilhjálmsson, skildi eftir sig. Í bókinni er dregin upp mynd af Thor, einstakri persónu sem var sannfærð um erindi sitt, lét ekkert stöðva sig og fórnaði mörgu fyrir listina. Hún fjallar um Thor en hún er einnig innileg bók um náið samband föður og sonar. Bókin kom út 2015.

Viggó — gengið af göflunum

Eftir Franquin

Mynd með færslu
 Mynd: Froskur útgáfa

Í ár eru sextíu ár frá því teiknimyndapersónan Viggó Viðutan birtist fyrst á prenti. Tilefnið er því ærið að endurnýja kynnin við eina helstu (and)hetju iðjuleysis í evrópskum teiknimyndasögum. Viggó er húðlatur, uppátækjasamur og einhver alversti starfskraftur sem um getur. Bækurnar urðu 19 talsins og sú síðasta kom út árið 1999 á frönsku, tveimur árum eftir andlát höfundarins André Franquin. Tólf bókanna komu út á Íslandi á sínum tíma, en Froskur útgáfa byrjaði að gefa þær aftur út fyrir ekki svo löngu.