58 féllu í Nígeríu

11.02.2016 - 00:56
A victim of a suicide bomb attack at a refugee camp receives treatment at a hospital, in Maiduguri, Nigeria, Wednesday, Feb. 10, 2016. Two female suicide bombers blew themselves up in a northeast Nigerian refugee camp, killing at least 56 people, health
 Mynd: AP
58 féllu í tveimur sjálfsmorðssprengjuárásum hryðjuverkasamtakanna Boko Haram í Nígeríu á þriðjudag. Árásirnar voru framdar nær samtímis og beindust gegn fólki sem þegar var á flótta - hafði hrakist á vergang vegna hernaðar vígasamtakanna í norðausturhluta landsins og hafðist við í flóttamannabúðum. Flestir hinna föllnu voru konur og börn sem biðu í biðröð eftir matarskömmtum. Tvær konur gengu að biðröðunum og sprengdu sig í loft upp. Boko Haram hefur þvingað fjölda kvenna til slíkra árása.

Um 50.000 hafast við í Dikwa-búðunum í Borno-héraði. Þótt árásin hafi verið gerð að morgni þriðjudags bárust fréttir af voðaverkinu ekki til umheimsins fyrr en langt var liðið á miðvikudag.  

Satomi Ahmed, sem stýrir almannavörnum í Borno-héraði, segir þrjár konur hafa komist inn í búðirnar, vopnaðar sprengjubúnaði. Tvær þeirra létu til skarar skríða en sú þriðja hætti við og gaf sig fram við yfirvöld. Að sögn Ahmeds hætti hún við hryðjuverkið þegar hún áttaði sig á að foreldrar hennar og systkini voru á meðal flóttafólksins í búðunum. 

Auk þeirra sem féllu særðust hátt í 70 manns í sprengjuárásunum. Mjög hefur verið sótt að Boko Haram á undanförnum mánuðum og ítök þeirra í Norðaustur-Nígeríu, þar sem samtökin höfðu lýst yfir stofnun eigin Kalífats, hafa farið ört minnkandi. Meiriháttar hernaðaraðgerðir af þeirra hálfu heyra nánast sögunni til og samtökin ráða ekki lengur neinum stórum landsvæðum eða fjölmennum þéttbýlisstöðum.

Mannskæðar skyndiárásir, mannrán og  sjálfsmorðssprengjuárásir á borð við þessa eru þó enn æði tíðar á þessum slóðum og illa gengur að ráða endanlega niðurlögum samtakanna. Að undanförnu hefur það færst sífellt í vöxt, að samtökin noti konur til að fremja sín voðaverk, enda eiga þær greiðari aðgang víða þar sem fjölmenni er samankomið, að sögn Abdulla Kaura Abubakars, tíðindamanns BBC í Abuja í Nígeríu. Það á líka við um flóttamannabúðir.

Vígamenn samtakanna hafa rænt fjölda kvenna, mörgum barnungum. Heilaþvottur, pyntingar og ógnanir hvers konar er það sem bíður þeirra í prísundinni, og ófá dæmi eru um að henni ljúki fyrst með þessum skelfilega hætti. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV