530 hafa dáið úr kóleru í Kongó

10.09.2017 - 02:16
epa06148990 A cholera-infected Yemeni boy receives treatment at a hospital amid a rapidly spreading cholera outbreak in Sana?a, Yemen, 17 August 201According to reports, more than 500,000 people in Yemen have been infected with cholera leaving almost 2
 Mynd: EPA
Um 530 manns hafa dáið úr kóleru í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó það sem af er ári, samkvæmt upplýsingum Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar, WHO. Í tilkynningu frá stofnuninni segir að mikil og skjót útbreiðsla faraldursins síðustu vikur sé afar uggvekjandi; kólerusmit hafi nú fundist í 20 af 26 héruðum landsins. Kólera er viðvarandi plága í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, þar sem hún varð 817 landsmönnum að bana á síðasta ári.

2. september síðastliðinn hafði Alþjóða heilbrigðisstofnunin skráð ríflega 24.000 sjúkdómstilfelli í landinu, sem grunur lék á að væru kólerusmit. Kólera smitast með saurgerlum í vatni og matvælum og orsakar skæðan niðurgang og mikinn vökvaskort samfara honum, sem getur leitt til dauða á skömmum tíma ef ekkert er að gert. Börn eru sérlega viðkvæm fyrir kóleru.

Í Jemen geisar nú skæðasti kólerufaraldur sem sögur fara af. Þar hefur á þriðja þúsund manns látist úr sjúkdómnum og staðfest smit eru ríflega 600.000. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV