50 þúsund króna skuld velkist um í kerfinu

21.04.2017 - 14:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur fellt úr gildi ákvörðun Vinnumálastofnunar þar sem manni var gert að greiða rúmar 50 þúsund krónur vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta. Nefndin vísaði málinu aftur til efnismeðferðar. Maðurinn var á atvinnuleysisbótum í rúmt ár, frá mars 2011 til apríl 2012, en hefur staðið í deilum við Vinnumálastofnun vegna skuldarinnar í rúm þrjú ár.

Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að maðurinn hafi verið á atvinnuleysisbótum frá mars 2011 til apríl 2012 en í febrúar tæpum tveimur árum seinna sendi Vinnumálastofnun honum bréf þar sem hann var krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 20. júní 2011 til 19. desember 2011 en þá hafði hann fengið greiddan lífeyri frá Tryggingastofnun.

Daginn eftir að maðurinn fékk bréf Vinnumálastofnunar krafðist hann skýringa á þessu en var hafnað. Hann kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða sem staðfesti ákvörðun Vinnumálastofnunar með úrskurði í apríl 2015. 

Maðurinn sætti sig ekki við þetta og leitaði til umboðsmanns Alþingis sem í apríl í fyrra óskaði eftir frekari upplýsingum um tiltekið álitaefni. Úrskurðarnefndin ákvað að endurskoða málið og kvað upp nýjan úrskurð í september 2016 þar sem ákvörðun Vinnumálastofnunar var felld úr gildi. 

Mánuði síðar ákvað Vinnumálastofnun að taka málið fyrir að nýju og komst að þeirri niðurstöðu að fyrri ákvörðun hennar stæði og maðurinn ætti að endurgreiða ofgreiddar bætur.  Hann óskaði eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun hálfum mánuði síðar en kærði hana í millitíðinni til úrskurðarnefndar velferðarmála. 

Nefndin komst síðan að þeirri niðurstöðu í lok síðasta mánaðar að fella bæri ákvörðun Vinnumálastofnunar úr gildi og hún ætti að taka málið aftur til efnismeðferðar. Nefndin telur að ástæða sé til að gera athugasemdir við meðferð Vinnumálastofnunar. Maðurinn hafi ekki óskað eftir endurupptöku eins og Vinnumálastofnun hafi haldið heldur aðgangi að gögnum málsins og rökstuðningi fyrir innheimtubréfinu frá því í febrúar 2014. 

Í úrskurðinum kemur jafnframt fram að skuld mannsins hafi verið 102 þúsund krónur eftir að 15% álagi hafði verið bætt við. Rúmar 53 þúsund krónur voru greiddar inn á skuldina og eftirstöðvarnar því 48 þúsund krónur. 

Úrskurðarnefndin staðfesti aftur á móti tvær aðrar ákvarðanir varðandi ofgreiddar bætur. Í öðru málinu var konu gert að greiða aftur 101 þúsund krónur þar sem hún var í námi á meðan hún fékk atvinnuleysisbætur. Í hinu málinu nam skuldin 286 þúsund krónum en þar hafði viðkomandi fengið tekjur frá lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun samhliða atvinnuleysisbótum.

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV