50 gráir skuggar fengu 4 Gullin hindber

28.02.2016 - 07:36
epa04616478 US actress Dakota Johnson (L) and Irish actor Jamie Dornan (R) pose for photographs on the red carpet at the UK film premiere of 'Fifty Shades of Grey in London, Britain, 12 February 2015. The movie opens in British theaters on 13
Þau Dakota Johnson og Jamie Dornan þóttu standa sig allra kvikmyndaleikara verst, bæði saman og sitt í hvoru lagi, og voru verðlaunum með Gullnum hindberjum fyrir vikið.  Mynd: EPA
Kvikmyndin 50 gráir skuggar var ótvíræður sigurvegari Razzie-verðlaunahátíðarinnar sem jafnan er haldin daginn fyrir Óskarsverðlaunahátíðina vestanhafs. Fékk hún Gullna hindberið sem versta kvikmynd ársins, en deildi reyndar þeim heiðri með ofurhetjumyndinni Fantastic four. Þá fengu aðalleikarar myndarinnar, þau Jamie Dornan og Dakota Johnson, hvort sitt Gullna hindberið fyrir versta leik í aðalhlutverki, auk þess sem þau voru útnefnd versta kvikmyndaparið.

Þá þótti handrit myndarinnar öllum handritum verra og verðskulda Gullið hindber fyrir vikið.

Fantastic four fékk næst flest verðlaun, meðal annars fékk Josh Trank gullið hindber fyrir verstu leikstjórnina. Kaley Cuoco þótti standa sig kvenna verst í aukahlutverki í myndinni Alvin og íkornarnir: Vegakornin, en Eddie Redmayne taldist skrapa botninn meðal karlkyns aukaleikara í hlutverki Balems Abrasax keisara í myndinni Rísandi Júpíter. Redmayne er reyndar einnig tilnefndur til Óskarsverðlauna sem besti leikari í aðalhlutverki, fyrir frammistöðu sína í hlutverki Einars Wegeners í mynd Tom Hoopers, Dönsku stúlkunni, sem segir frá ævi hans og listakonunnar Gerðu. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV