44 ár frá fæðingu hiphops í dag

11.08.2017 - 14:40
Mynd með færslu
 Mynd: D.L.  -  Wikimedia Commons
Í dag, 11. ágúst, eru 44 ár frá þeim atburði sem er sagður hafa markað upphaf hiphop-menningarinnar.

Það var partý sem jamaíkanski innflytjandinn og plötusnúðurinn Kool Herc hélt 11. ágúst 1973 í Suður-Bronx hverfi New York borgar. Það sem Kool Herc hafði uppgötvað sem plötusnúður var að fólk dansaði meira við vissa kafla í lögunum sem hann spilaði, einkum stutta millikafla þar sem mikið var um slagverk – sem hann kallaði „break“. Til að lengja þessa kafla tók Herc upp á því að vera með tvær plötur af sömu tegund á sitthvorum plötuspilaranum, og þegar „break“-ið var búið á einum spilaranum setti hann það á á hinni plötunni, og meðan það spilaðist þar spólaði hann hina plötuna til baka og skipti svo aftur yfir. Þannig gat hann lengt góðu kaflana út í hið óendanlega ef sá gállinn var á honum.

Kool Herc útskýrir hvernig hann fékk hugmyndina.

Þessi tækni sló í gegn og partý af þessum toga breiddust fljótt út í Bronx. Síðar komu til sögunnar svokallaðir veislustjórar (MC's, Master of Ceremonies) hvers hlutverk var að kynna plötusnúðana og koma fólki til að dansa. Í byrjun voru þetta einfaldir „eru ekki allir í stuði?“ textar, stundum með smá rími, en athöfnin þróaðist með tímanum yfir í rapp eins og við þekkjum það í dag. Aðrir hlutar af hiphop-menningunni voru svo graffiti veggjalist og breikdansinn sem fær nafn sitt af téðum „break“-um.

Eitt af þeim lögum sem Kool Herc spilaði mikið, hægt er að heyra „break“-in í byrjun lags og á mínútu 2:23

Með lögum eins og „Rappers Delight“ með Sugarhill Gang, „The Message“ með Grandmastur Flash & The Furious Five og „Planet Rock“ með Africa Bambaata dreifðist svo hiphop um öll Bandaríkin og að lokum víða veröld – og er nú ráðandi afl í poppmenningu samtímans. Leitarvél Google fagnar 44 ára afmælinu í dag með því að leyfa notendum sínum að spreyta sig á þeirri plötusnúðatækni sem fæddi af sér hiphop-ið. Einkennismerki Google er í dag í veggjakrotsstíl og ef smellt er á það opnast kynning á sögu hiphopsins en svo blasa við notendum tveir plötuspilarar og mixer með plötukassa við hliðina á. Í kassanum er að finna mörg af þeim lögum sem plötusnúðar í árdaga hiphopsins fundu „break“ á, og geta notendur spreytt sig á plötuklóri, blanda saman töktum og ýmsum fleiri þrautum. Þeim lesendur sem vilija reyna á hæfileika sína er uppálagt að fara inn á Google og smella á einkennismerkið til að byrja að æfa sig.

Mynd með færslu
 Mynd: Google
Svona lítur Google leitarvélin út í dag.
Mynd með færslu
 Mynd: Google
Plötukassinn sem hægt er að "róta" í.
Mynd með færslu
Davíð Roach Gunnarsson
vefritstjórn