400 hlutir úr einu tré á Handverkshátíð

11.08.2017 - 16:20
Mynd með færslu
 Mynd: Atli Þór Ægisson  -  RÚV
Handverkshátíð í Eyjafjarðarsveit er hafin, en hún er nú haldin í 25. skiptið. Þema sýningarinnar er tré og verður meðal annars hægt að skoða 400 hluti sem skornir voru úr einu og sama birkitrénu. 

Handverkshátíð er að venju haldin á Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit og stendur fram á sunnudag. Þar hittist handverksfólk af öllu landinu, skemmra sem lengra komið, og kynnir ýmis konar handverk.

Mynd með færslu
 Mynd: Katrín Káradóttir  -  RÚV

Þemað í ár er tré og er hápunkturinn vafalaust sænska farandssýningin UR BJÖRK. 22 sænskir handverksmenn koma að sýningunni, en þeir skiptu á milli sín 25 metra háu birkitré og skáru út úr því 400 hluti. Það tók hópinn sex mánuði að vinna sýninguna og var allt nýtt af trénu. Einn aðstandenda sýningarinnar er sænski heimilisiðnaðarráðunauturinn Knut Östgård, en hann er jafnframt heiðursgestur Handverkshátíðar í ár og stendur fyrir námskeiðum og fyrirlestrum um helgina. 

Um 150 sýnendur eru á hátíðinni í ár og er allt svæðið undirlagt. Þar að auki verður fjölbreytt dagskrá; söguganga, matarmarkaður, landbúnaðarsýning, listasmiðja fyrir börnin og margt fleira. Í kvöld, föstudag, er kvöldvaka þar sem valinkunnir söngvarar stíga á stokk. Síðustu ár hafa 15-20 þúsund manns heimsótt handverkshátíðina og er reiknað með svipuðum fjölda í ár. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Katrín Káradóttir  -  RÚV