400 almennum borgurum rænt í Sýrlandi

17.01.2016 - 09:57
Mynd með færslu
Liðsmenn Íslamska ríkisins.  Mynd: AP
Liðsmenn hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki rændu í morgun rúmlega 400 almennum borgurum, þar á meðal börnum, í austurhluta Sýrlands. AFP fréttaveitan greinir frá þessu og hefur eftir starfsmanni mannúðarsamtakanna Mannréttindavaktin í Sýrlandi.

Samtökin hafa barist af hörku í Sýrlandi síðustu misseri og hafa náð stórum hluta landsins á sitt vald. Í morgun réðust liðsmenn Íslamska ríkisins á borgina Deir Ezzor og bættu þá við landvinninga sína. Liðsmenn samtakanna tóku í gíslingu íbúa í úthverfum í norðvesturhluta borgarinnar.

Fulltrúi Mannréttindavaktarinnar segir að allir gíslarnir séu súnníar – en liðsmenn íslamska ríkisins eru salafistar eða wahabistar sem eru öfgasinnaðir súnníar. Þá segir fulltrúi Mannréttingavaktarinnar einnig að ættingjar margra þeirra sem teknir voru séu bardagamenn hliðhollir Assad Sýrlandsforseta. Hann segir að gíslarnir hafi verið fluttir til annarra svæða í Sýrlandi sem samtökin hafi yfirráð yfir.

Þá greindi Mannréttindavaktin í Sýrlandi frá því undir hádegi að 40 almennir borgarar hefðu fallið í loftárás á borgina Raqa, sem er vígi Íslamska ríkisins. Börn væru meðal fallinna. Ekki væri víst hvort Rússar hefðu gert árásina en þeir hafa varpað sprengjum á vígi hryðjuverkasamtakanna í Sýrlandi.

 

Guðjón Helgason
Fréttastofa RÚV