40 féllu í loftárásum í Jemen

28.02.2016 - 01:21
epa05183618 A Yemeni inspects the damage following a Saudi-led airstrike targeting a neighborhood in Sana'a, Yemen, 27 February 2016. According to reports, at least 40 people were killed in Saudi-led airstrikes hitting a market at the Nihem region,
 Mynd: EPA
Minnst 40 fórust og 30 særðust í loftárás á útimarkað í Nehm-sýslu norðaustur af Sanaa, höfuðborg Jemens á laugardag. Langflestir í hópi fórnarlambanna voru óbreyttir borgarar, en á Khulaqa-markaðnum er verslað mikið með lauf khat-plöntunnar, sem eru lítillega örvandi og Jemenar tyggja líkt og Íslendingar drekka kaffi. Sjónarvottar fullyrða að árásirnar hafi verið gerðar af orrustuþotum úr liði Sádi-Araba og bandamanna þeirra.

Sveitir hliðhollar Jemensforseta, sem Sádi-Arabar styðja, hafa sótt að uppreisnarmönnum Húta í Nehm-sýslu að undanförnu, í því skyni að skapa sér betri vígstöðu í sókninni að Sanaa, sem einnig er að mestu á valdi uppreisnarmanna.

Sádi-Arabar hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir að sjást ekki fyrir í loftárásum sínum og hirða lítt um að forðast borgaraleg skotmörk. Um 6.000 manns hafa fallið í Jemenstríðinu, sem staðið hefur í rúma 11 mánuði. Minnst helmingur þeirra telst til óbreyttra borgara. Hundruð þúsunda eru á vergangi í landinu og mikill skortur er á mat, lyfjum og vatni.