39 milljón í sjúkrahús og 81 til framhaldskóla

13.09.2017 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fyrrverandi fjármálaráðherra og þingmaður Samfylkingarinnar segir að raunverulegt viðbótarframlag til framhaldsskólana á árinu nemi samtals 81 milljón króna í fjárlagafrumvarpinu og til allra sjúkrahúsa landsins fari samtals 39 milljónir króna viðbótarframlag. Þá lækki vaxtabætur um nærri þriðjung og tekuskerðing barnabóta miðist við 250 þúsund króna mánaðartekjur sem sé lægra en lágmarkslaun.

„Þegar við erum búin að taka frá byggingu nýs Landspítala og þegar við erum búin að taka frá launahækkanir samkvæmt kjarasamningum og lítið er hægt að gera við þá stendur þetta eftir í rekstrinum ; 509 milljónir eru í plús en sjúkrahúsin þurfa að skera niður um 470 á móti. Þannig að nýir peningar inn í sjúkraþjónustu á landinu á árinu 2018 eru 39 milljónir“, sagði Oddný G. Harðardóttir Samfylkingu og fyrrverandi fjármálaráðherra í Morgunútvarpi rásar 2. Hún segir greinilegt að þeir sem betur hafi það í þjóðfélaginu njóti góðærisins en ekki þeir sem standi höllum fæti. 

Til viðbótar þessu benti Oddný á í samtali við Fréttastofu að það sama megi segja um framhaldsskólana. Aukning til framhaldsskólastigsins í fjárlagafrumvarpinu á næsta ári nemi samtals 81 milljón króna. Útgjaldasvigrúmið sé 686 milljónir en aðhaldskrafan það er niðurskurðurinn nemi 605 milljónum. Þetta komi skýrt fram í frumvarpinu [sjá bls. 315 í fjárlagafrumvarpinu og um sjúkrahúsþjónustu á bls. 337 í frumvarpinu].

Oddný segir að þó tekjuviðmið barnabóta hækki í frumvarpinu frá fyrra ári þá byrji barnabætur að skerðast við 250 þúsund króna tekjur á mánuði. Það er lægra en 300 þúsund króna lágmarkslaun. 

„Sjáið þið húsnæðisstuðninginn í þessu frumvarpi. Vaxtabæturnar eru lækkaðar um rúm 30% sem að hafa þó lagst með fólki með lágar og meðaltekjur. Eru að lækka um þessa fjárhæð út af reiknuðum stærðum sem er hærra fasteignaverð. Þetta þýðir bara minna ráðstöfunarfé fyrir fólkið sem að í mörgum tilfellum er sama fólkið og fær lægri barnabætur. Og þetta er ekki rétt skipting.“