379 kærur vegna brota á nýársnótt

09.01.2016 - 18:00
epa05094262 Police drive back protesters at a demonstration by the anti-Islam Pegida movement (Patriotic Europeans Against the Islamisation of the Occident) of North Rhine-Westphalia and right-wing extremist party Pro Koeln, in Cologne, Germany, 09
 Mynd: EPA  -  DPA
Lögregluyfirvöldum í Köln hafa nú borist 379 kærur vegna þjófnaða og ofbeldisverka í miðborginni á nýársnótt. Að sögn lögreglu lúta um 40% málanna að kynferðisofbeldi. Þrír lögreglumenn og einn fréttamaður eru sárir eftir að mótmæli hægriöfgamanna í Köln fóru úr böndunum síðdegis.

Lögregla hefur borið kennsl á 32 menn sem grunaðir eru um að hafa tekið þátt í þjófnuðum og ofbeldi gegn konum á nýársnótt í Köln. Staðfest hefur verið að 22 þeirra séu hælisleitendur.

Pegida-samtökin efndu til mótmæla í miðborg Kölnar í dag, en samtökin berjast gegn því sem þau kalla íslamsvæðingu Evrópu. Talið er að um 1.700 áhangendur Pegida hafi tekið þátt í mótmælunum. Viðlíka stór hópur andstæðinga Pegida kom saman til að mótmæla kynþáttahatri. Á meðal þeirra sem tóku þátt í mótmælum Pegida voru um 600 hægriöfgamenn sem köstuðu flugeldum og glerflöskum að lögreglu. Þrír lögreglumenn slösuðust og einn fréttamaður. Lögregla hefur nú rýmt svæðið.