3.700 fleiri karlar en konur í landinu

20.03.2017 - 10:33
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Þorsteinsson  -  RÚV
Fólki fjölgaði hlutfallslega mest á Suðurnesjum í fyrra þar sem fjölgunin varð 6,6%. Á Vestfjörðum fækkaði fólki um 0,2% en þaðan fluttust 13 að því fram kemur í tölum Hagstofu Íslands. Landsmenn voru rúmlega 338 þúsund á nýársdag og hafði fjölgað um tæp 6 þúsund frá því árinu áður. 

Konum og körlum fjölgaði nokkuð jafnt en karlar eru samt 3.700 fleiri í landinu en konur. 

Tala sveitarfélaga óbreytt

Sveitarfélög í landinu eru 74, sú tala breyttist ekki í fyrra. Í sex þeirra búa færri en hundrað; í níu eru þeir fleiri en 5.000. Langflestir búa í þéttbýli eða um 317 þúsund landsmanna, rúmlega 21 þúsund búa í dreifbýli eða smærri byggðakjörnum. 

Hjón án barna algengast fjölskyldugerðin

Hagstofan rýnir líka í fjölskyldugerðir. Kjarnafjölskyldur voru 81 þúsund í fyrra. Hjón án barna var algengast fjölskyldugerðin eða 39%,  hjón með börnum voru 27% einstæðar mæður með börnum um 14%, fólk í sambúð með börnum 13%, sambúðarfólk án barna 5% og einstæðir feður með börnum eitt og hálft prósent.