34 fórust í Brussel

28.03.2016 - 00:57
epa05229728 People gather and pay tribute to the many people killed and injured in multiple terrorist attacks accross Brussels on 22 March, at Place de la Bourse,  in Brussels, Belgium, 24 March 2016. At least 31 people were killed with hundreds injured
 Mynd: EPA
Alls létu 34 lífið í árásunum í Brussel á þriðjudag, 31 almennir borgarar og þrír árásarmenn. Formleg kennsl hafa nú verið borin á árásarmennina og 28 fórnarlömb þeirra. Ríkissaksóknaraembættið í Belgíu staðfestir þetta í fréttatilkynningu í kvöld. Unnið er að því að bera formleg kennsl á þrjú fórnarlömb með erfðaefnisrannsóknum. Af tilkynningunni má ráða að menn telji sig vita hvaða fólk þetta er, þótt ekki hafi tekist að staðfesta það endanlega.

Fjöldi þeirra sem féllu í árásunum hefur verið nokkuð á reiki en fram til þessa hefur oftast verið talað um 31, að árásarmönnunum meðtöldum. Þá hefur verið talið að fleiri hafi farist í jarðlestinni við Malbeek-stöðina en á flugstöðinni. Samkvæmt tilkynningu ríkissaksóknara er þessu öfugt farið. 15 almennir borgarar létust á flugvellinum en 13 í jarðlestinni.

Á flugvellinum fórust sex Belgar og níu frá öðrum löndum; Bandaríkjamenn, Hollendingar, Svíi, Þjóðverji, Frakki og Kínverji. Í jarðlestinni létust tíu Belgar, einn Ítali, einn Svíi og einn Breti. 62 manneskjur sem særðust í árásunum eru enn á gjörgæslu á sjúkrahúsum vítt og breitt um Belgíu og í Frakklandi.