319 umsóknir í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða

19.02.2016 - 16:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjölmargar umsóknir bárust til Ferðamálastofu vegna úthlutunar úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Til úthlutunar nú eru rúmlega 660 milljónir króna, en alls voru umsóknir 319 talsins. Aldrei hafa fleiri umsóknir borist um styrk úr sjóðnum.

Í miðju umsóknarferli var sú ákvörðun tekin að breyta reglum um mótframlag umsækjenda. Áður var í gildi svokallað krónu-gegn-krónu fyrirkomulag, þar sem umsækjendur þurftu að leggja til sömu upphæð í verkefnið og sótt var um að fá úr sjóðnum. Þetta gat haft þau áhrif að landeigendur treystu sér ekki til að sækja um. 

Nú eru reglurnar þannig að mótframlagið miðast við 20% af heildarkostnaði framkvæmdanna. Samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu hafði þetta í för með sér að umsóknum fjölgaði gríðarlega, auk þess sem umsóknum sem þegar hafði verið skilað inn var breytt í samræmi við nýjar reglur.

Ljóst er að ekki nærri því allir munu fá úthlutað úr sjóðnum. Í síðustu úthlutun, sem var sérstök aukaúthlutun fyrir 850 milljónir króna, fengu 104 verkefni styrk. Frá fyrstu úthlutun árið 2012 hafa 450 styrkir verið veittir, rúmlega 2,3 milljarðar króna.