300.000 mótmæltu hjónabandi samkynhneigðra

31.01.2016 - 00:28
epa05135051 People take part in the Family Day, a big rally set at Circo Massimo in Rome, Italy, 30 January 2016. The Family day was organized to protest against a bill to recognize civil unions, including same-sex ones, that Italian parliament is
 Mynd: EPA  -  ANSA
Hundruð þúsunda söfnuðust saman á svokölluðum Fjölskyldudegi í Róm, og mótmæltu lagafrumvarpi sem miðar að því að veita samkynja pörum sömu réttindi og öðru sambúðarfólki og hjónum í landinu. Þar á meðal er réttur annars aðilans til ættleiðingar á líffræðilegu barni maka síns. Mótmælendur komu víðs vegar að frá Ítalíu og söfnuðust saman í hinu ævaforna hringleikahúsi, Sirkús Maximus, þar sem menn kepptu í hestakerruakstri forðum. Nú stigu kaþólskir prestar þar dansinn Conga.

 

Hið umdeilda frumvarp var tekið til fyrstu umræðu á þinginu nú í vikunni og áætlað er að atkvæði verði greidd um það í febrúar. Mótmælendur halda því fram að hjónabandið og fjölskyldan grundvallist alfarið og eingöngu á sambandi karls og konu, og börn eigi rétt á því að eiga bæði föður og móður. Lögin um jafnan rétt samkynhneigðra á þessu sviði séu til þess fallin að grafa undan hefðbundnum gildum hinnar ítölsku þjóðar. Skipuleggjendur mótmælanna sögðu 2 milljónir hafa safnast saman, en blaðamenn á staðnum áætluðu fjöldann um 300.000.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ítrekað gert athugasemdir við hjónabandslöggjöf Ítalíu og þá mismunun gagnvart samkynhneigðum sem þar er að finna. Um síðustu helgi söfnuðust hundruð þúsunda saman í um 100 bæjum og borgum Ítalíu til að krefjast þess að samkynja pör nytu sömu lagalegu réttinda og önnur.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV