3 þyrlur og stóraukið fé til heilbrigðismála

31.03.2017 - 11:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gert er ráð fyrir því í ríkisfjármálaáætlun, sem kynnt var í dag, að útgjöld til heilbrigðismála verði stóraukin. Þá er fyrirhugað að kaupa þrjár þyrlur fyrir Landhelgisgæsluna og lækka rekstrarkostnað ríkisins með því að byggja framtíðarhúsnæði fyrir Stjórnarráðið. Fjármálaáætlunin gerir jafnframt ráð fyrir því að Ísland taki á móti stórauknum fjölda kvótaflóttamanna og hælisleitenda og að tekið verði á loftslagsmálum með heildstæðum hætti.

Ríkisfjármálaáætlunin var kynnt á blaðamannafundi í dag. Þar kemur fram að hún sýni þá forgangsröðun sem ríkisstjórnin hefur, stærstu útgjaldaliðirnir séu heilbrigðis- og velferðarmál. Uppsafnaður raunvöxtur útgjalda til heilbrigðismála nemur, samkvæmt áætluninni, 22 prósentum og 13 prósentum til velferðarmála.

Gera á umbætur á skattkerfinu;  þannig ætlar ríkisstjórnin að lækka almennt þrep virðisaukaskattsins úr 24 prósentum í 22,5 þann 1. janúar 2019. Þá verða flestar tegundir ferðaþjónustu felldar undir almennt þrep virðisaukaskatts og á sú breyting að taka gildi í júlí á næsta ári.

Áætlunin nær til ársins 2022 . Fram kemur á vef fjármálaráðuneytisins að unnið verði að því að vega á móti þenslu í hagkerfinu, stuðla að sátt á vinnumarkaði, taka á gengisstyrkingu, efla opinbera þjónustu og styrkja innviði.  „Stjórnvöld bera þá ábyrgð að velja milli skammtímahagsmuna og langtímahagsmuna, uppbyggingar og sparnaðar, skattlagningar og frelsis. Það er bjart fram undan á Íslandi ef skynsamlega er að málum staðið,“ segir í áætluninni.

Í áætluninni kemur fram að framkvæmdir við meðferðarkjarna og rannsóknarhús verði boðnar út árið 2018 og að framkvæmdir verði komnar á fullt skrið þá. Þá á að byggja nýja Vestmannaeyjaferju, hefjast handa við Dýrafjarðargöng, byggja þrjú ný hjúkrunarheimili og kaupa þrjár nýjar þyrlur fyrir Landhelgisgæsluna.

Í áætluninni kemur fram að stöðugleikaframlögin frá slitabúum föllnu bankanna hafi verið tíu milljörðum hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir eða tæpir 80 milljarðar. Gert sé ráð fyrir því að á þessu ári nemi þær 109 milljörðum króna en stærstur hluti þess er tengdur umdeildri sölu á þrjátíu prósenta hlut í Arionbanka og greiðslu á skuldabréfi Kaupþings.

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV