29 féllu í árásinni í Ougadougou

16.01.2016 - 20:15
epa05104751 French forces take up positions outside the Splendid Hotel in Ouagadougou, Burkina Faso, 16 January 2016. According to media reports at least 23 people from 18 nationalities have been killed after Islamist militants attacked The Splendid Hotel
Franskir hermenn á götu í Ougadougou í dag.  Mynd: EPA
Yfirvöld í Búrkína Fasó staðfestu í kvöld að 29 hefði látið lífið í árás hryðjuverkamanna í höfuðborginni Ougadougou í gærkvöld. Þrjátíu hefðu særst. AQIM, Afríkuarmur al-Kaída hefur lýst árásinni á hendur sér.

Sérfræðingar í málefnum al-Kaída segja í viðtölum við BBC að AQIM, vilji marka sér stöðu sem ráðandi vígasamtök í Norður-Afríku og á Sahel-svæðinu og bola burt Íslamska ríkinu - sem hefur komist til áhrifa þar.

Önnur samtök herskárra íslamista, sem tengjast al-Kaída og kalla sig Emírsdæmið í Sahara, hafa í haldi áströlsk hjón sem rænt var í Búrkína Fasó í gær. Fréttastofan AFP hafði eftir heimildarmanni að fólkið, sem fyrst var sagt frá Austurríki, væri á lífi og að gefnar yrðu nánari upplýsingar um það síðar.

Hjónin eru sögð hafa búið í Djibo í norðurhluta Búrkína Fasó síðan á áttunda áratug síðustu aldar og reist þar heilsugæslustöð.