270 þúsund horfa á Víking Heiðar

Mynd með færslu
 Mynd: RMM
Í hvert skipti sem þú spilar verk eða tón á nýjan leik finnurðu nýjar leiðir til að tjá það frekar en að endurtaka það, segir Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari í viðtali við New York Times. Hann spilar í fyrsta sinn í New York á Mostly Mozart hátíðinni í Lincoln Centre. Netverjar eru búnir að horfa rúmlega 270 þúsund sinnum á myndband með viðtali Josh Barone, menningarblaðamanns New York Times, við Víking Heiðar.

Víkingur segir í viðtalinu frá því hvernig hann kynntist verkum tónskáldsins Phillips Glass á unglingsárum þegar pabbi Víkings gaf honum geisladisk með verkum Glass. Hann fór þó ekki að spila píanóverk eftir Glass fyrr en honum gafst tækifæri til að æfa og spila með Glass. „Þegar maður fær svona boð segir maður já. Það gerist ekki á hverjum degi að maður fái tölvupóst frá frumkvöðli í tónlist.“ 

Í viðtalinu spilar Víkingur Heiðar á píanóið og svarar spurningum til skiptis. Þar útskýrir hann meðal annars hugsunina á bak við píanóleikinn og túlkun tónverka. Víkingur lýsir meðal annars samskiptum sínum við Philip Glass um hvernig hann leiki verk tónskáldsins. Þá hafi Glass eitt sinn sagt að Víkingur ætti einhvern tímann að fá hraðasekt en að það yrði ekki Glass sem myndi gera það.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV