270 milljónir í aukna atvinnuþátttöku

12.09.2017 - 23:09
Startup Stock Photos

Fólk fundar við viðarborð.
 Mynd: Stocksnap.io
Lagt er til í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar að tæpum 270 milljónum króna verði varið í að styðja við atvinnuþátttöku þeirra sem standa höllum fæti á vinnumarkaði.

Rúmum 80 milljónum króna verður varið í að fjölga vinnusamningum öryrkja, 20 milljónir fara til Vinnumálastofnunar til að efla þjónustu við fatlaða í atvinnuleit og 75 milljónum verður varið ti þess að lengja það tímabil sem heimilt er að greiða fólki endurhæfingarlífeyri.

Þá verður um 90 milljónum varið í að undirbúa innleiðingu starfsgetumats. Ítarlega hefur verið fjallað um starfsgetumat í Speglinum að undanförnu. Þar kom fram að í rannsókn Félagsvísindastofnunar að ungt fólk á örorku- eða endurhæfingarlífeyri hafði lítinn stuðning fengið frá fagaðilum áður en það fór á lífeyri. 
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, sagði í Speglinum að hann ætti ekki von á því að nýtt fyrirkomulag kæmi til með að spara verulega fjármuni fyrir ríkissjóð en sagði ljóst að spyrna verði við fótum þegar kemur að fjölgun öryrkja. „Við erum að horfa á það að fjölgun öryrkja og nýgengi örorku eins og það hefur verið hjá okkur á undanförnum árum, er í slíkum takti að til lengri tíma litið er það ósjálfbær þróun. Það er ljóst að við verðum að spyrna þar við fótum en útgangspunkturinn er alltaf sá sami, við verðum að horfa á einstaklingana á bak við þetta og tækifæri þeirra til betra lífs sem ég held að séu verulega skert í núverandi kerfi.“ 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV