250 starfa við Marriott hótelið við Hörpu

21.08.2015 - 08:42
Um tvö hundruð og fimmtíu manns munu starfa við lúxushótel Marriott-keðjunnar í Reykjavík sem ráðgert er að verði opnað eftir tvö til þrjú ár. Kostnaðurinn við hótelbygginguna er í kringum hundrað milljónir Bandaríkjadala.

Í gær var greint frá því að hótelið sem á að rísa við hlið Hörpu verði undir merkjum Marriott-keðjunnar. Bandaríska fasteignafélagið Carpenter & Company keypti lóðina undir hótelið.

„Við erum búin að skrifa undir alla samningar, mörg hundruð blaðsíðna samninga, við landeigendur, Arion-banka og Marriott,“ segir Richard Friedman, forstjóri Carpenter & Company. 

Arion-banki skipulagið fjármögnun verkefnisins. Hótelið verður fimm stjörnu og því í hágæðaflokki. Það verður hluti af svonefndri Edition-línu Marriot-keðjunnar. Þannig hótel eru til að mynda í London, Miami og New York. Verð fyrir nóttina í Reykjavíkur hefur ekki verið ákveðið segir Sandeep Walia, svæðisstjóri Marriott í Evrópu. „En ég get fullvissað ykkur um að það verður í hærri kantinum á Íslandi,“ segir Walia. „Góðir hlutir kosta sitt.“ Þess má geta að verðið fyrir næturgistingu á London Edition hótelinu er frá áttatíu og fjórum þúsund krónum. „Það er mjög erfitt að finna mjög góð hótelherbergi í Reykjavík og ég tel að það sé afar mikil eftirspurn eftir hótelum sem þessum,“ segir Friedman. 

Tvö hundruð og fimmtíu herbergi verða í hótelinu og þarf jafn marga starfsmenn. Yfirmenn og hluti starfsliðs verða erlendir. „En allir aðrir sem við ráðum, þjónar, hreingerningafólk og fleiri, þeir verða héðan,“ segir Walia. „Við byrjum að þjálfa starfsfólk ári áður en við opnum,“ segir Walia. „Það verður veitingastaður, bar á þakinu og heilsulind.“

Friedman segir að byggingaframkvæmdir hefjist í vetur og að það muni taka tvö til tvö og hálft ár að byggja það. Og allt þetta kostar skildinginn sinn. „Yfir eitt hundrað milljónir Bandaríkjadala,“ segir Friedman. Það gerir rúma þrettán milljarða íslenskra króna.

Carpenter og company hafa undirbúið kaupin síðastliðin tvö ár. „Það er afar flókið að eiga viðskipti hér. Staðsetningin, reglugerðir og samskipti við nágranna eru flókin. Þá er Marriott ekki auðveldasta fyrirtækið til að eiga viðskipti við. Svo það hafa verið margar flækjur,“ segir Friedman en gleðst yfir því að samningar séu nú í höfn. 

Mynd með færslu
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV