22.000 vígamenn Íslamska ríkisins nafngreindir

10.03.2016 - 03:22
FILE - In this undated file image posted by the Raqqa Media Center, in Islamic State group-held territory, on Monday, June 30, 2014, which has been verified and is consistent with other AP reporting, fighters from the Islamic State group ride tanks during
Frá Raqqa, höfuðvígi Íslamska ríkisins í Sýrlandi. Uppljóstrarinn Abu Hamed heldur því fram að hryðjuverkasamtökin ætli sér að yfirgefa borgina innan skamms.  Mynd: AP  -  Militant photo
Breska sjónvarpsfréttastöðin Sky News fékk nýlega í hendur tugþúsundir rafrænna skjala sem meðal annars innihalda nöfn, símanúmer, heimilisföng og fleiri upplýsingar um 22.000 vígamenn Íslamska ríkisins frá 51 landi, þar á meðal Bretlandi og öðrum Evrópuríkjum, Bandaríkjunum og Kanada. Liðhlaupi úr röðum Íslamska ríkisins stal minnislykli með upplýsingunum frá yfirmanni leyniþjónustu Íslamska ríkisins og afhent lykilinn fréttamanni stöðvarinnar.

Frá þessu er greint á heimasíðu Sky News. Sá sem upplýsinganna aflaði kallar sig Abu Hamed og er sagður hafa verið í innsta hring vígasamtakanna og leyniþjónustu þeirra. Meðal gagna á minnislyklinum er félagaskrá samtakanna, ef svo má að orði komast. Þá skrá hefur Hamed nú selt í hendur Sky, ásamt öllum þeim upplýsingum öðrum sem á lyklinum eru.

Samkvæmt þessum gögnum þurftu þeir sem vildu ganga í raðir Íslamska ríkisins að svara 23 spurningum á því sem vart verður kallað annað en umsóknareyðublað, áður en þeir fengu inngöngu í hryðjuverkasamtökin. Þar gefa þeir upp nafn, símanúmer, heimilisfang, blóðflokk, hversu vel þeir eru inni í Sjaria-lögunum að eigin mati, meðmælendur, nánustu aðstandendur, menntun og fyrri störf og fæðingarnafn móður, svo eitthvað sé nefnt.

Á listanum er að finna fjölda manns, sem vitað var að gengið höfðu til liðs við Íslamska ríkið, en mestur fengur þykir þó í enn fleiri nöfnum fólks, sem hingað til hefur ekki verið tengt við samtökin. Eitt skjalanna ber yfirskriftina „Píslarvottar“. Þar eru tíundaðir meðlimir samnefndrar sveitar, sem er alfarið skipuð mönnum sem vilja gera sjálfsmorðsárásir og fá til þess viðeigandi þjálfun.

Sum símanúmeranna á minnislyklinum eru enn í notkun. Reiknað er með að stór hluti þeirra tilheyri ættingjum viðkomandi vígamanna, en jafnframt talið að þó nokkur þeirra tilheyri hryðjuverkamönnunum sjálfum. 

Abu Hamed er sagður fyrrum liðsmaður Sýrlenska frelsishersins, sem gekk Íslamska ríkinu á hönd. Hann mun hafa orðið fyrir vonbrigðum með nýja leiðtoga Íslamska ríkisins og segir samtökin hafa verið yfirtekin af fyrrverandi hermönnum Baath-flokks Saddams Husseins í Írak.

Eftir að þeir komust til valda hafi sú íslamska hugmyndafræði sem hann trúði á að engu orðið innan samtakanna, og því hafi hann ákveðið að hlaupast undan merkjum.

Í samtali við fréttamann Sky, sem hann hitti á laun í Tyrklandi, fullyrti Hamad að Íslamska ríkið væri við það að gefa höfuðvígi sitt í Raqqa í Sýrlandi upp á bátinn og flytja sig inn í eyðimörkina í Mið-Sýrlandi, og þaðan til Íraks, þar sem hreyfingin á uppruna sinn. Þá hélt hann því fram að Íslamska ríkið, vopnaðar sveitir sýrlenskra Kúrda og stjórn Assads Sýrlandsforseta ynnu í raun saman gegn bardagasveitum hófsamari stjórnarandstæðinga í Sýrlandi. 

Breska leyniþjónustan, MI6, hefur þegar fengið afrit af gögnunum. Engin formleg viðbrögð hafa borist þaðan, og ekki heldur frá innanríkisráðuneytinu eða öðrum opinberum aðilum.

Richard Barrett, fyrrverandi yfirmaður alþjóðahryðjuverkadeildar MI6, sagði hins vegar í samtali við Sky News að gögnin væru ómetanleg og algjör gullnáma fyrir fjölda fólks, einkum þó öryggis- og njósnastofnanir, sem vonlegt væri. Upplýsingar um meðmælendur vígamannanna, lönd sem þeir ferðuðust um á leiðinni til Sýrlands, fyrri bardagareynslu og sérþekkingu væru sérlega áhugaverðar fyrir þessa aðila.