21. umferð Olísdeildar karla hefst í kvöld

18.02.2016 - 15:33
Mynd með færslu
 Mynd:  -  SportTV
Þrír leikir fara fram í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Baráttan um miðja deild er æsispennandi og gæti enn harðnað.

Staðan um miðja deild er gríðarjöfn. Fram er í 3. sæti með 21 stig en er samt aðeins tveimur stigum á undan Akureyri sem er í 7. sæti. FH er þar skammt undan með 16 stig en 8 efstu liðin fara í úrslitakeppnina.

Fram-Víkingur

Fram tekur á móti Víkingi í Safamýri í kvöld. Fram hefur tapað báðum leikjum sínum eftir EM-hléið og tapaði að auki síðasta leik fyrir jól. Víkingar sitja í neðsta sæti deildarinnar, 6 stigum á eftir ÍR sem er í næstneðsta sæti. Víkingar hafa, líkt og Fram, tapað báðum leikjum sínum eftir áramót en stóðu lengi vel í toppliði Hauka í síðustu umferð.

Afturelding-Grótta

Í Mosfellsbæ er áhugaverð rimma Aftureldingar og Gróttu. Grótta hefur byrjað af krafti eftir áramót og unnið báða leiki sína, auk þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum bikarkeppninnnar. Afturelding, sem spilaði til úrslita á Íslandsmótinu í fyrra, hefur unnið einn leik og tapað öðrum eftir áramót. Afturelding er stigi á undan Gróttu í deildinni, jafnt Fram að stigum. 

ÍR-Valur

Breiðhyltingar hafa átt erfitt ár. Þeir sitja í næstneðsta sæti deildarinnar og endi þeir þar í vor fellur liðið í 1. deild. ÍR-inga vantar 4 stig til að ná FH sem er í sætinu fyrir ofan. ÍR tapaði geg Akureyri í síðustu umferð en gerði jafntefli við ÍBV í fyrsta leik eftir áramót. Valsmenn sitja öruggir í öðru sæti deildarinnar, 9 stigum á undan Fram en fjórum stigum á eftir toppliði Hauka. Ætli Valsmenn sér sigur í deildinni má liðið illa við því að tapa stigum gegn næstneðsta liði deildarinnar.

Allir þrír leikir kvöldsins hefjast klukkan 19:30. 21. umferðinni lýkur á laugardag með leik Hauka og ÍBV en á morgun mætast FH og Akureyri.

FH-Akureyri

FH-ingar geta, ef ÍR tapar stigum gegn Val, stigið risaskref í átt að öruggu sæti í deildinni og þar með sæti í úrslitakeppninni. FH-ingar hafa verið vaxandi að undanförnu og unnið einn leik og tapað einum eftir áramót. Sigur gegn Akureyri myndi ennfremur minnka forskot Akureyringa í 7. sætinu í 1 stig. Það gefur okkur þá niðurstöðu að Akureyringar hljóta að renna í leikinn með það í huga að sigur hjá þeim gefur þeim 5 stiga forskot á FH. Akureyringar byrjuðu illa í haust en hafa frá nóvember spilað mjög vel og hægt og bítandi færst upp töfluna.

Leikur FH og Akureyrar er í Kaplakrika annað kvöld og hefst klukkan 19:00.

Haukar-ÍBV

Vorið 2014 vann ÍBV sinn stærsta sigur í handbolta þegar liðið lagði Hauka að Ásvöllum í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Síðan þá hafa Haukar hins vegar orðið Íslandsmeistarar síðastliðið vor á meðan ÍBV vann bikarmeistaratitilinn í fyrra. Það hefur verið bras á ÍBV í vetur og meiðsli hafa sett strik í reikninginn hjá liðinu. ÍBV er, líkt og Fram og Afturelding, með 21 stig í 3.-5. sæti deildarinnar. Þeir hafa endurheimt Agnar Smára Jónsson frá Danmörku en Agnar Smári var lykilmaður í liði eyjamanna undanfarin tvö ár. Hvort það eitt og sér dugi gegn Haukum er hins vegar vafaatriði. Haukar hafa spilað gríðarlega vel í vetur og eru með 4 stiga forskot í deildinni. Þeir hafa aðeins tapað 3 af 20 leikjum sínum í deildinni og eru komnir í undanúrslit í bikarnum. 

Leikur Hauka og ÍBV er í beinni útsendingu á RÚV á laugardag klukkan 16.
Áður en að þeim leik kemur sýnir RÚV leik Hauka og FH í Olísdeild kvenna.

Staðan í Olísdeild karla:

 
  Lið Leikir S J T +/- Stig
1. Haukar 20 17 0 3 113 34
2. Valur 20 15 0 5 54 30
3. Fram 20 10 1 9 9 21
4. Afturelding 20 10 1 9 0 21
5. ÍBV 20 9 3 8 14 21
6. Grótta 20 10 0 10 -9 20
7. Akureyri 20 8 3 9 -10 19
8. FH 20 8 0 12 -47 16
9. ÍR 20 5 2 13 -48 12
10. Víkingur 20 2 2 16 -76 6

 

Einar Örn Jónsson
íþróttafréttamaður