2015 heitasta ár frá upphafi mælinga

21.01.2016 - 04:13
epa04528879 (FILE) Picture taken 15 June 2010 shows cracked and parched earth at central Thailand's biggest water reservoir, the Pasak Cholasit Dam in Lopburi province, about 190 kms northeast of Bangkok, Thailand. UN climate negotiators meeting in
 Mynd: EPA  -  EPA FILE
Árið 2015 var langheitasta árið á jörðinni frá því mælingar hófust, samkvæmt úttekt NASA og Sjávar- og loftslagsstofnunar Bandaríkjanna, NOAA. Þetta er í fjórða sinn sem hitamet er sett á þessari öld.

Samkvæmt gögnum stofnananna var meðalhiti síðasta árs 0,9 gráðum yfir meðalhita á tuttugustu öldinni. 2015 sló þar með met ársins á undan þegar meðalhiti var 0,16 gráðum yfir meðaltali tuttugusta aldar. Gögn frá breskum stofnunum staðfestu niðurstöður þeirra bandarísku.

Veðurfyrirbærið El Niño á einhverja sök á metinu, en vísindamenn segja að mannanna verk eigi langmesta sök, þá helst brennsla jarðefnaeldsneytis að sögn Reuters fréttastofunnar. Thomas Karl, stjórnandi við NOAA, segir niðurstöðurnar í samræmi við mynstur síðustu fjögurra til fimm áratuga.

Ríki heims samþykktu á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í desember síðastliðnum að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að hitastig jarðar hækki ekki um meira en tvær gráður. Til þess að svo verði segja vísindamenn að verulega verði að minnka notkun gróðurhúsalofttegunda. Það þurfi að gera strax því hitinn árið 2015 sé meira en einni gráðu yfir viðmiðum SÞ.

Karl segir allt benda til þess að hitametið verði slegið í ár. Miðað við stefnu síðustu ára og áhrif El Niño fram á vor er það nánast örugg að mati hans.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV