„20% réttlæti varð skyndilega að núlli“

13.07.2017 - 07:53
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Þröstur Leó Gunnarsson og Bergur Ingólfsson skrifa saman grein í Fréttablaðinu í morgun þar sem þeir greina frá því að þeir eigi báðir tvær dætur sem hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi og þeirri fimmtu hafi verið byrlað ólyfjan. Henni var komið undir læknishendur áður en frekari glæpir áttu sér stað. Aðeins ein þeirra hafi fengið réttlæti en því hafi verið „sullað út í kæruleysislegri en drambsamri embættisfærslu sitjandi forsætisráðherra.“ 20 prósent réttlæti hafi skyndilega orðið að núlli.

Bergur hefur vakið mikla athygli fyrir gagnrýni sína á mál Róberts Árna Harðarsonar, nú Robert Downey.  Dóttir Bergs var ein þeirra sem Robert braut gegn en honum var veitt uppreist æra í fyrra og fékk síðan lögmannsréttindi sín aftur með dómi Hæstaréttar.

Þessu hefur verið mótmælt og ekki liggur fyrir hvaða tveir veittu Roberti meðmæli sín þannig að hann fengi uppreist æru. Enginn gögn fást um málið, hvorki hjá dómsmálaráðuneytinu né dómstólum.

Þröstur Leó stígur nú fram með Bergi og greinir frá því að tvær dætur hans hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi í grein sem þeir skrifa saman í Fréttablaðið í morgun. „Fyrirfram héldum við að slík tölfræði væri ómöguleg. Í ofanálag hefur öðrum okkar ekki enn tekist að koma dætrum sínum yfir tvítugsaldurinn án þess að þær hafi verið beittar kynferðislegu ofbeldi. Í hvernig samfélagi viljum við búa?“ Spyrja þeir.

Leikararnir tveir segjast ekki lengur geta áfellst sjálfa sig fyrir að hafa ekki verndað dætur sínar nógu vel. „Við getum ekki annað en reynt að hafa eins hátt og okkur er unnt þar til menningarlegur umsnúningur verður hjá yfirvaldinu og þjóðinni hvað þessi mál varðar.“ Það verði hvorki gert með því að setja límmiða yfir glös þeirra né skipa þeim að fara í síðari pils. 

Bergur og Þröstur gagnrýna bæði forseta Íslands og forsætisráðherra - þeir hafi sett nafn sitt við uppreist æru Roberts eins og drengir í hlutastarfi á bílaþvottastöð.  „Hreyfum við hugsunarhætti okkar. Hættum að setja ábyrgðina á þolendur. Krefjumst ábyrgðar af ráðamönnum. Siðmenning er að hugsa fyrst um hag þeirra sem höllum fæti standa.“

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV