16 banaslys á síðasta ári - Kort

Mynd með færslu
Á síðustu árum hefur náðst góður árangur í fækkun banaslysa í umferðinni, sé miðað við tölfræði um slík slys frá árinu 1999. Frá því ári og til 2006 voru þau sjaldan undir 20 á ári. Fjöldi látinna var mun hærri á því tímabili, en frá 2007 og til dagsins í dag. Árið 2015 var þó eitt það versta síðan 2007 og slysin þrisvar sinnum fleiri en árið á undan.

Árið 2014 létust fjórir í umferðarslysum og í byrjun desember sagði Ágúst Mogensen í samtali við fréttastofu RÚV að þá hefðu slysin verið „óvenju fá.“

„Árið 2015 höfum við séð mörg banaslys þar sem erlendir ferðamenn og erlendir ökumenn koma við sögu,“ sagði Ágúst, sem er rannsóknarstjóri umferðarslysasviðs hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa. Þegar viðtalið var tekið höfðu 13 banaslys orðið, en þau urðu á endanum 16. Við bættust banaslys í Ártúnsbrekku í Reykjavík, rétt utan við Akureyri og við einbreiða brú yfir Hólá í Öræfum á Suðurlandi.

Inn í tölur fyrir árið 2015 vantar nóvember og desember, nema þegar kemur að banaslysum.

Á árinu komu alls sjö erlendir ökumenn við sögu í banaslysum. Sex þeirra létust og sá sjöundi sætir nú farbanni, þar sem sterkur grunur leikur á um að hann hafi valdið mannsbana af gáleysi. Ágúst benti einnig á að óvenju mörg slys hefðu orðið þar sem eldri ökumenn kæmu við sögu, þar sem grunur væri um að veikindi hefðu valdið slysum.

Eitt slys sem vakti athygli varð í Ljósavatnsskarði. Þar skullu saman tveir bílar þegar ökumaður annars þeirra missti stjórn á bílnum og keyrði framan á hinn. Í þeim bíl voru tvær stúlkur frá Malasíu, sem náðu árekstrinum fyrir tilviljun á myndband. Það sýnir glögglega hve lítið þarf til svo illa fari.

Sé tölfræði allt til ársins 1999 skoðuð, kemur í ljós að banaslysum hefur fækkað verulega og sömuleiðis þeim sem láta lífið í umferðinni á hverju ári. Betur má þó ef duga skal og árið 2011 var sérstöku átaki hleypt af stokkunum til að fækka umferðarslysum. Átakið á standa til 2020 og þáverandi innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, sagði að takmarkið væri að útrýma alvarlegum slysum og banaslysum. Hér að neðan má sjá hve mörg banaslys hafa orðið í umferðinni frá 1999 og hve margir hafa látist.

 Á kortinu hér að neðan má sjá slys á höfuðborgarsvæðinu.

Hér sést hitakort, sem sýnir hvar flest slys verða á landinu.

Á þessu korti sjást einungis banaslys sem urðu árið 2015.