150 milljónir í félag vegna stöðuleikaeigna

01.03.2016 - 14:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Meirihluti efnahags-og viðskiptanefndar telur rétt að félag sem eigi að taka við og annast svokallaðar stöðugleikaeignir heyri beint undir fjármálaráðuneytið en ekki Seðlabanka Íslands. Nefndin telur ljóst að stofnkostnaður félagsins verði umtalsverður, meðal annars vegna lögfræði- og ráðgjafarþjónustu. Hún leggur því til að stofnfé þessa nýja félags verði um 150 milljónir.

Þetta kemur fram í nefndaráliti sem dreift var á Alþingi í dag.  

Kjarninn greindi frá því í janúar að greiðsla stöðugleikaframlaga væri á bið þar sem Alþingi væri ekki búið að samþykkja frumvarp fjármálaráðherra um breytinga á lögum um Seðlabanka Íslands.

Frumvarpið átti að gera Seðlabankanum kleift að stofna félag sem gæti tekið við stöðugleikaframlögum sem talin eru nema 350 milljörðum. Seðlabankinn sagði í umsögn sinni við frumvarpið að það væri álitamál hann ætti setja upp félag og skipa því stjórn sem hefði það að meginmarkmiði að umbreyta eignum sem bankinn ætti ekki og bæri ekki ábyrgð á.

Meirihluti efnahags-og viðskiptanefndar virðist sammála þessu mati og leggur til að þetta félag verði ekki á forræði Seðlabankans heldur heyri beint undir fjármálaráðuneytið sem fari með eignir ríkissjóðs. Þá leggur nefndin það til að það í verkahring ráðherra að skipa í stjórn félagsins.

Meirihlutinn leggur sérstaka áherslu á gagnsæi og nefnir sem dæmi að ef tvær leiðir standi til boða við ráðstöfun á eignum skuli velja þá leið sem er gagnsærri.  

Þá áréttar meirihlutinn að ákvæði stjórnsýslulaga og upplýsingalaga skulu gilda um starfsemi félagsins eftir því sem við á og að kappkostað skuli að stilla kostnaði við rekstur félagsins og sölu eigna í hóf. 

 

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV